Þrír íslenskir drengir, sem voru numdir á brott af heimili föður síns í Noregi og fluttir til Íslands með einkaþotu, dvelja enn á heimili móður sinnar hér á landi og eru byrjaðir í skóla.

Tekin verður skýrsla af þeim í dag vegna kæru sem móðirin hefur lagt fram. Þetta staðfestir Hildur Sólveig Pétursdóttir, lögmaður Eddu Arnardóttur móður drengjanna, í samtali við Fréttablaðið.

Málið varðar forræðisdeilu milli fyrrverandi hjóna sem eiga saman fimm börn, þrjá drengi sem hafa búið með föður sínum í Noregi eftir að honum var dæmt forræði og tvær dætur sem hafa búið með móðurinni á Íslandi.

Ásakanir a víxl

Ásakanir hafa gengið á víxl milli foreldranna, en lögmaður föðurins sagði börnin ekki örugg hjá móðurinni. Elsta dóttir þeirra steig fram í hlaðvarpinu Eigin konur, þar sem hún sakaði föður sinn um að hafa snert sig á óviðeigandi hátt.

Edda flaug með einkaþotu til Noregs í mars síðastliðnum til að sækja syni sína og flytja þá til Íslands. Aðgerðin var þaulskipulögð og sagðist Edda hafa ráðfært sig við fagfólk. Eina niðurstaðan hafi verið að sækja börnin.

Saksóknari í Noregi hefur gefið út ákæru á hendur móðurinni fyrir brottnámið en lögreglan á Íslandi aðhefst ekkert fyrr en hún fær beina skipun frá lögreglunni í Noregi.

Móðirin kærir

Upphaflega stóð til að ríkissaksóknari tæki skýrslu af börnunum en móðirin kærði það. Faðirinn fór fram á að skýrslutakan færi fram í Noregi en héraðsdómur hafnaði því.

Faðirinn kærði þá synjun héraðsdóms til Landsréttar sem úrskurðaði að skýrslutakan færi fram hér á landi þann 20. maí.

Skýrslutakan í dag er vegna kæru sem móðir barnanna lagði fram en Hildur Sólveig, lögmaður móðurinnar, segist ekki geta tjáð sig um efni kærunnar.