Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann í miðborginni í gærdag, en sá reyndist hafa dvalið of lengi á Schengen svæðinu sem ferðamaður. Í dagbók lögreglu kemur fram að búið sé að taka skýrslu af manninum og sætir hann nú brottvísunarferli af landinu samkvæmt reglum um of langa dvöl innan Schengen.
Lögregla hafði í nægu að snúast nýliðna nótt, en mikið var um tilkynningar sem tengdust ölvun, slagsmálum og hávaða. Sex ökumenn voru stöðvaðir í miðborginni, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis. Allir voru sendir í sýnatöku og þeim sleppt að henni lokinni.
Þá barst lögreglu tilkynning um yfirstandandi innbrot í verslun í Kópavogi. Samkvæmt tilkynningunni var um að ræða nokkra aðila sem fóru af vettvangi á bifreið. Meintir innbrotsþjófar voru handteknir vegna málsins og vista þeir nú fangaklefa, en málið er í rannsókn.