DV hefur lagt fram kæru gegn Landspítalanum vegna höfnunar hans á veitingu upplýsinga um bólusetningarstöðu þeirra sem hafa verið lagðir inn á spítalann vegna sýkingar af Covid-19.

Landspítali hafði neitað að verða við upplýsingabeiðni um stöðu bæði þeirra sem voru lagðir inn á gjörgæslu og þeirra sem voru á almennu Covid-deildinni. Hafði hann gefið út að slíkar upplýsingar yrðu ekki veittar lengar og hafði veitt öðrum fjölmiðlum sambærileg svör.

Spítalinn færði rök fyrir því að upplýsingar um bólusetningahlutfall sjúklinga væru persónugreinanlegar og að því bæri ekki að afhenda þær. Þessu mótmælti DV og benti á í kæru sinni að upplýsingarnar gætu fráleitt talist persónugreinanlegar þar sem 86,2% þeirra sem máttu þiggja bólusetningu hefðu verið bólusettir þegar ákvörðunin var tekin. Aðeins tveir hafi verið á gjörgæslu á aldrinum 40-70 ára á þeim tíma og jafnframt hafi slíkar upplýsingar áður verið veittar án athugasemda sjúklinga.

Í röksemdafærslu DV með kærunni kom fram:

Óumdeilt er að upplýsingar um stöðu bólusetninga inniliggjandi sjúklinga á LSH eiga erindi við almenning. Um fátt annað er rætt þessa stundina en gildi, virkni og árangur bólusetningarátaks hins opinbera. Málið er í senn stærsta átakamál almennings og íslenskra stjórnmála, og hangir framtíð ákvarðanatöku stjórnvalda um svonefndar innanlandstakmarkanir, sem og aðgerðir á landamærunum, einmitt á því hvort hópur bólusettra á í hættu á að lenda inni á sjúkrahúsi eða gjörgæslu. Spurningin um hvort fólkið sem er að veikjast af völdum faraldursins sé bólusett eða ekki er því grundvallaratriði í upplýstri áframhaldandi umræðu um sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda.

Án slíkra upplýsinga er hætt við að geta almennings til þess að mynda sér sína eigin, sjálfstæða og upplýsta skoðun á aðgerðum stjórnvalda, sem margar hverjar takmarka grundvallarmannréttindi fólks til þess að koma saman, ferðast, fara út úr húsi, o.fl.,verði verulega takmörkuð.

Í kærunni er þess krafist að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skyldi Landspítalann til að láta upplýsingarnar af hendi.