Sigmundur Ernir Rúnarsson
Laugardagur 4. desember 2021
12.00 GMT

Það á að heita íslenskt sumar þegar tvítugur menntskælingur skilar sér með rútunni norðan úr landi og er varla búinn að finna sér húsnæði í höfuðborginni en að hann stendur staffírugur í enda Síðumúlans, staðráðinn í því að verða blaðamaður sunnan heiða. Og það er gengið hús úr húsi í leit að vinnu.

Á því herrans ári 1981 eru öll dagblöðin, utan Morgunblaðið, með höfuðstöðvar sínar í Síðumúla, þó Alþýðublaðið sé raunar staðsett í stuttri hliðargötu þar nærri, en það hæfir þeim litla blöðungi sem gárungar segja að komist samanbrotið fyrir í eldspýtnastokki.

Fyrst er knúið dyra á Þjóðviljanum sem stendur hjarta þessa landsbyggðarróttæklings nokkuð nærri, en þar er enga vinnu að hafa. Örlítið innar er Dagblaðið til húsa, uppreisnarblaðið sjálft sem þá þegar hafði breytt svo miklu í íslenskri blaðamennsku, en þar vantar heldur ekki nokkurn mann.

Og þá er úr vöndu að ráða, álíka langt er í Tímann og Vísi, en þar eð síðarnefnda blaðið er í byggingunni sem er áfast Dagblaðshúsinu er ekkert verið að storka örlögunum, heldur arkað upp stigann upp á ritstjórnarskrifstofur þessa 70 ára gamla blaðs, enda þótt þær eigi að heita einna hægrisinnaðastar í þessari götu.

Og af því að Ellert ritstjóri Schram heyrir það á kauða að norðanpiltur yrki ljóð og hafi þá þegar gefið út eitt hefti af þeim er hann ráðinn á stundinni, vísað inn ganginn, hvar hann geti fengið skrifborð í bás með þeim Árna Sigfússyni, Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni og Óskari Magnússyni, en blárra gat það nú ekki verið, allt saman staðfastir stuttbuxnadrengir.

En ungi herstöðvarandstæðingurinn sest nú þarna samt, með órafmagnaða ritvél fyrir framan sig. Aðeins ritstjórarnir höfðu aðgang að rafmagnsritvélum – og það með innbyggðum leiðréttingarborða, þvílík sem tæknin var orðin í upphafi níunda áratugarins.

Vígreifir forkólfar DV og fyrrum fjandmennirnir með fyrsta eintak blaðsins í höndum í nóvember 1981. Frá vinstri er Jónas Haraldsson fréttastjóri, Magnús Ólafsson hönnuður, Ögmundur Kristinsson prentari, Ellert Schram ritstjóri og Jónas Kristjánsson.
Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Götubardagi á hverjum degi

Líður svo og bíður með ofboðslegri keppni á milli síðdegisblaðanna sem haga sér eins og bræðurnir á bóndabænum upp til sveita sem búa í sama húsi en talast aldrei við, heldur hreyta ónotum hvor í annan, milli þess sem þeir heyja sama blettinn, bölvandi á svipinn.

Það er stríð á síðdegisblaðamarkaðnum, götubardagi upp á sérhvern dag – og Óla blaðasala er legið á hálsi fyrir að selja bæði blöðin niðri á horni Reykjavíkurapóteks, en menn geti ekki verið í báðum liðunum, jafnvel ekki hann, blessaður maðurinn.

En svo gerast undrin um haustið, þegar líða tekur að jólum, að bormenn Íslands eru allt í einu mættir framan við burðarvegginn á milli Dagblaðsins og Vísis og hlaða í ógurlegan sýlinn. Það á að brjóta niður þilið sem um árabil hefur skilið að helstu keppinautana á íslenskum dagblaðamarkaði, heyr á endemi.

Ekki það að starfsmennirnir sem mættu á fyrstu vaktina um morguninn hafi áttað sig á nokkru saman, alltént og allra síst að glóðin væri komin í friðarpípuna. Og því var það svo að sá sem hér lemur lyklaborðið labbaði í sínu vanalega þúfnagöngulagi yfir ásinn ofan úr Háaleiti, þar sem strætóið hans hafði stoppað, og var ekkert að velta því fyrir sér að þessi stóra bygging síðdegisblaðanna væri öllsömul uppljómuð í glannabítið klukkan fimm að morgni.

Óvinurinn mættur

En gott og vel, það var bara gengið inn á sinn gang með viðkomu í kompunni þar sem erlendu fréttaskeytin voru rifin úr strimlavélinni og sest að því búnu framan við órafmögnuðu ritvélina og byrjað að þýða það sem gerst hafði í heimi hér um nóttina, með bakið út að gangi.

Gott ef Ellert ritstjóri kom ekki tvisvar inn á bás og bað mig um að láta af frekari verkum, því blaðið væri tilbúið, en nývaknað ungmennið, upptekið af heimsfréttunum heyrir auðvitað ekkert slíkt, heldur pikkar áfram – og það af ákafa með tveimur stífum puttum, sem dugðu þá og duga enn.

Loks kemur svo fréttastjórinn Sæmundur Guðvinsson og grípur um öxlina á norðanpilti og dregur hann á stólnum fram á gang, hvort ég sjái ekki hvað sé í gangi – og mikil ósköp, ég góni á smettið á Jónasi Kristjánssyni sem arkar allt í einu fram hjá, sjálfur erkióvinurinn, hvað er hann að gera í okkar húsum.

En svo sé ég líka Jónas Haraldsson, fréttastjóra óvinarins, klappandi á öxlina á Ellerti Schram – og það er sem maður haldi sig vera í miðri martröðinni, Dagblaðspakkið allt í kring, kolröngu megin í húsinu. Og maður kyngir stóru munnvatni.

Mynd tekin á fyrsta ritstjórnarfundi DV sem haldinn var í nóvember 1981.
Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Reknir menn og ráðnir

Síðdegis byrja bormennirnir á veggnum þykka og stórir hringlaga kjarnar safnast saman á gólfinu uns gættin á milli óvinablaðanna opnast. Og þá þarf að færa til bedda inni í einhverju bakherbergi Dagblaðsmegin sem reynist kalla fram alla vega glamur í flöskum og fleygum. Og það stendur heima, undir dívönunum leynast tómar brennivínsflöskur í tugavís sem safnast höfðu þar fyrir eftir blúsaða blaðamennsku áranna áður þar sem heimilislífið hafði á stundum endað niðri á blaði, í svo sem eins og nótt og nótt.

Svo stóð maður í röðinni þennan dag, við Vísis-krakkarnir framan við kontórinn hans Ellerts og Dagblaðs-liðið framan við kamesið hans Jónasar Kristjáns. Og þeir sem fóru inn komu þaðan ýmist grátandi eða brosandi, reknir eða ráðnir áfram.

En þannig hefur lífið verið í blaðamennskunni, svo ótal lengi og oft.

Sjálfur hélt ég plássinu, af því að ég væri byrjaður á næstu ljóðabók, en skrifaði þar fyrir utan læsilega íslensku og væri fundvís á fréttir, man ég að Ellert sagði þennan dag þegar hann rak svo marga og þar á meðal nána vinnufélaga sína til margra ára, rétt eins og varð hlutskipti Jónasar, litlu vestar í síðdegisblaðahúsinu.

Og tímamótin voru alger, áþreifanleg, svo sem varfærið handabandið á milli okkar Kristjáns Más Unnarssonar sem hafði verið fjandmaður minn á Dagblaðinu í góðan part úr ári, en við settumst hlið við hlið í fundarherbergi Vísis á fyrsta hittingi sameiginlegrar ritstjórnar DV – og ekki grunaði okkur þá að samvinna okkar myndi vara í áratugi, á blaði jafnt sem útvarpi og sjónvarpi, eins og svo margra annarra við hringborðið í Síðumúla.

Óli blaðasali á horninu sínu við Reykjavíkurapótek, táknmynd götublaðanna.
Fréttablaðið/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Áratugur umbreytinganna

Sameining DV gerist á mesta breytingatíma íslenskrar blaðamennsku sem er rammaður inn af áratugnum frá 1975 til 1985 þegar flokksblöðin í einsleitu samfélagi víkja fyrir frjálsri og óháðri rannsóknarblaðamennsku með stofnun Dagblaðsins 1975 uns einokun Ríkisútvarpsins í ljósvakamiðlum var afnumin áratugi seinna.

Þessi áratugur algerra umbreytinga í íslensku samfélagi, frá þöggun til þroskaðrar umræðu, er líka varðaður af kærkomnu kvenfrelsi, með kvennafrídeginum í annan enda, kjöri Vigdísar í miðbikið og kvennabyltingu á þinginu í hinn endann, einmitt þegar innmúrað flokkakerfið er byrjað að brotna niður, karllægara en andskotinn.

Og frjálst óháð dagblað reynist geta gert svo miklu meira en gömlu gatslitnu flokksblöðin sem sögðu það sem átti að segja, en helst aldrei allt – og þar fyllti DV loksins upp í eyðurnar með því að sýna samfélagið í raunmynd sinni, á breiddina, með viðtölum sem þá voru raunar kölluð einkaviðtöl við afvatnaða drykkjumenn, afkróaða homma og kjarkaðar konur sem vildu upp á pall.

Ísland opnaðist af því óháð blaðamennska var komin til að vera.

Athugasemdir