Davíð Atli Gunnarsson, 20 ára strákur sem útskrifaðist sem dúx úr framhaldsskólanum á Húsavík með einkunnina 9,38 í fyrravor, er furðu lostinn eftir að hafa fengið höfnunarbréf frá Háskólanum á Akureyri. Háskólinn segist hafa getað tekið hann inn hefðu þau sjö pláss í viðbót.

„Ég fór bara fyrst að hlæja því ég hélt að þetta væri grín. Ég hélt bara að þetta væru mistök,“ segir Davíð í samtali við Fréttablaðið. Fyrrverandi kennari Davíðs, sem hefur kennt í framhaldsskóla frá árinu 1984, segist ekki hafa heyrt um annað eins.

Einingar yfir einkunnir

Davíð sótti um í viðskiptafræði og fékk svar í fyrradag um að honum væri hafnað. Í svari frá háskólanum kemur fram að þrjár ástæður gætu legið að baki höfnunar; umsókn uppfylli ekki inntökuskilyrði, staðfest afrit af námsferli og prófskírteini hafi ekki borist í tæka tíð eða vegna forgangsröðunar vegna mikils fjölda umsókna.

Fyrstu tvær ástæðurnar eiga ekki við í máli Davíðs og því hlýtur hann að hafa fengið höfnun vegna þeirrar þriðju; forgangsröðunar vegna fjölda umsókna. Háskólinn á Akureyri setur einingar í forgang yfir einkunnir. Samkvæmt þeirri forgangsröðun gæti nemandi með fimm í einkunn en fleiri einingar komist inn fram yfir Davíð.

Samkvæmt inntökuskilyrðum á vef háskólans eiga nemendur að hafa lokið 25 einingum í stærðfræði, 25 einingum í ensku og 20 einingum í viðskiptafögum. Umsækjendur geti skilað inn ferilskrá (0-5 stig) og kynningarbréfi (0-5 stig).

Tók allar einingar sem voru í boði

Davíð skilaði inn bæði ferilskrá og kynningarbréfi og hefur hann lokið einingum í öllum fögum nema viðskiptafögum. Ástæðan er einföld.

„Minn framhaldsskóli bauð ekki upp á viðskiptafög þannig ég gat ekki tekið þau. Ég tók 35 einingar í stærðfræði og 20 í ensku af 20 mögulegum í framhaldsskólanum mínum. Það var ekkert meira í boði fyrir mig í skólanum.“ Þar að auki hefur Davíð unnið sér inn mikla reynslu í faginu en hann hefur verið að leysa af sem verslunarstjóri í verslun á Húsavík.

Háskólinn á Akureyri tilkynnti í síðustu viku að fjölga eigi samþykktum umsóknum um nám við skólann úr rúmlega 1.000 í allt að 1.400 fyrir komandi skólaár.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í júní um að auka fjármagn til háskólanna til að mæta aukinni aðsókn.

Fjármagn frá ríkinu virðist þó ekki vera nóg til að hleypa inn dúxum eins og Davíð.