Rodrigo Duterte, for­seti Filipps­eyja, fer hörðum orðum um Ís­land í dag eftir að til­laga Ís­lands í mann­réttinda­ráði Sam­einuðu þjóðanna var sam­þykkt í gær. Hann segir ís­lensk stjórn­völd ekki skilja á­standið á eyjunum en til­lagan kveður á um að fram­kvæmd verði óháð rann­sókn á stöðu mann­réttinda­mála á eyjunum.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá fór at­kvæða­greiðsla fram um til­löguna á fundi mann­réttinda­ráðsins í Genf í gær. Stjórn­völd á Filipps­eyjum hafa um nokkra hríð sætt harðri gagn­rýni fyrir að virða ekki mann­réttindi íbúa landsins.

Talið er að lög­reglu­yfir­völd á Filipps­eyjum beri þannig á­byrgð á af­tökum þúsunda án dóms og laga vegna stríðsins gegn eitur­lyfjum og þeim sem þau selja.

Í um­fjöllun ABC er haft eftir for­setanum um ís­lensk stjórn­völd að þau skilji ein­fald­lega ekki á­standið. „Hvert er vanda­málið á Ís­landi? Það er ykkar vanda­mál, þið eigið of mikinn ís og það er engin bjartur dagur eða nótt þar...þið skiljið ekki glæpi, það eru engir lög­reglu­menn og þeir borða bara ís,“ er meðal annars haft eftir for­setanum.

„Þið skiljið ekki fé­lags­leg, efna­hags­leg og stjórn­kerfis­vanda­mál Filipps­eyja,“ hélt hann jafn­framt á­fram. Filippeysk stjórn­völd hafa brugðist ó­kvæða við til­lögunni og hafnað henni með öllu. Þau segja til­gang hennar vera að gera lítið úr stjórn­völdum þar í landi.