Ólafur Stefánsson segir að röð atburða hafi bjargað lífi Ölmu Sóleyjar, dóttur Önnu Sigríðar barnsmóður hans, sem var grafin upp úr snjóflóðinu á Flateyri í nótt. Ólafur og Anna Sigríður eiga saman tvö börn en elsta dóttir Önnu slapp með skrekkinn og eru þær nú á Ísafirði að jafna sig eftir nóttina.

„Landhelgisgæslan er að fljúga með yngstu börnin til okkar frá Flateyri. Þau munu dvelja hér í nótt á Ísafirði,“ segir Ólafur. Mæðgurnar voru fluttar með varðskipinu Þór á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar en þar býr Ólafur.

Það tók fjóra tíma fyrir mæðgurnar að komast með varðskipinu en að sögn Ólafs var hrikalega slæmt í sjóinn.

Snjórinn fyllti stofuna.
Fréttablaðið/Aðsend

Röð atburða varð til þess að allt fór vel

Anna Sigríður var í stofunni heima hjá sér á Flateyri ásamt börnum sínum þremur þegar snjóflóðið féll. Þá var Anna að spjalla við vinkonu sína í síma og gat vinkonan því haft samband við björgunarsveitir þegar hún heyrði hvað hefði gerst.

Björgunarsveitarmenn voru þegar undirbúnir vegna fyrra flóðsins á Flateyri og gátu því farið strax á vettvang og hafið björgunaraðgerðir örfáum mínútum eftir að seinna flóðið féll.

Hefði Anna staðið einum metra frá þeim stað sem hún var hefði hún sennilega farið út um gluggann með snjónum, sem fór í gegnum stofuna og út um gluggann á framhliðinni. Til allrar lukku stóð Anna við burðarbita sem bjargaði henni meðan snjórinn flæddi inn báðum megin við hana. Veggur fór í einu herbergi og forstofan fylltist af snjó.

Alma Sóley, elsta dóttir Önnu Sigríðar, lá í rúmi sínu þegar seinna flóðið féll. Hún var grafin í snjó í svefnherberginu og tók 40 mínútur að grafa hana upp. Hún náði ekki að fara undir rúmið en til allrar hamingju var hún með dúnsæng utan um sig sem bjargaði henni.

Eftir að seinna flóðið féll fékk Ólafur símtal frá Önnu þar sem hún sagði honum frá því sem hefði gerst og að Alma væri grafin í snjó.

„Það er ótrúlegt að hún hafi sloppið. Maður áttar sig eiginlega ekki á þessu. Hún er líkamlega spræk en þetta var auðvitað áfall,“ segir Ólafur en hann segist vera þakklátur björgunarsveitinni.

„Viðbragðsaðilar voru ótrúlegir og það er mikill samhugur í fólki.“

Ólafur, Anna Sigríður og börnin eru öll frá Reykjavík en rúmt ár er síðan þau fluttu til Flateyrar.

Hefði Anna staðið einum metra frá þeim stað sem hún var hefði hún sennilega farið út um gluggann með snjónum, sem fór í gegnum stofuna og út um gluggann á framhliðinni.
Fréttablaðið/Aðsend