Dularfullur hlutur sem fannst í kjallara Háskólans á Akureyri í vikunni reyndist ekki geislavirkur. Akureyri.net greinir frá því að húsvörður við skólann hafi veikst illa eftir að hafa komist í snertingu við hlutinn, var hann fluttur á sjúkrahús og sagðist líða eins og hann hefði unnið við rafsuðu í langan tíma.

Starfsmenn Geislavarna ríkisins fóru norður til að rannsaka hlutinn, sem var eins konar hólkur, og fundu enga geislavirkni. Hvorki á hlutnum né í kjallaranum.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor skólans, sagði við Akureyri.net að hluturinn hljóti að hafa verið þarna í tvo áratugi. „Ég er jafn spenntur og þú að komast að því hvað þessi hlutur er að gera þarna og til hvers hann hefur verið notaður!“ sagði Eyjólfur.