Dularfullur svartur Steinway flygill birtist fyrir framan Skógafoss og Seljalandsfoss í dag. Ingimundur Stefánsson vakti athygli á flyglinum í dag á Facebook hópnum Bakland Ferðaþjónustunnar.

Um er að ræða flygil á vegum píanóleikarans Gabriel E. Arnold en hann ferðast um allan heim og spilar klassíska tónlist á Steinway flygilinn eins og má sjá á myndunum hér að neðan.

Hann kallar verkefnið Grand Piano on Tour. Nú er hann staddur hér landi til að taka upp tónlistarmyndband en hann ætlar að spila Tunglskinssónötuna eftir Beethoven í íslenskri náttúru. Flygillinn hefur þegar komið við á Þingvöllum, við Geysi og víða um Suðurland.

Hann birtir myndir af ferðalaginu á Instagram og deilir myndböndum á Youtube síðu sinni.

Gabriel hefur meðal annars spilað á flygilinn ofan á íshellu einhvers staðar á norðurskautinu meðan ísbrjótur sigldi fram hjá.