Hundruð fíla hafa fundust látin í Botsvana. BBC hefur eftir Niall McCann, talsmanni bresku góðgerðarsamtakanna National Park Rescue, að yfir 350 fílahræ hafi fundist í tveimur eftirlitsflugum í maímánuði.

Málið vekur mikla furðu en ekki er vitað hvers vegna fílarnir dóu. Óvenjulegt er að finna svo mörg hræ þegar ekki er um þurrk að ræða. Búið er að gera stjórnvöldum í landinu viðvart um ástandið og taka sýni úr hræunum. Vænta má þess að niðurstöður úr sýnatökunum liggi fyrir innan nokkurra vikna.

Nokkrar kenningar eru á lofti um hvað olli dauða fílanna. Spurningar hafa vaknað um hvort þetta hafi verið af völdum veiðiþjófa en stjórnvöld hafa útilokað það þar sem fílarnir voru enn með höggtennur sínar.

McCann segir mögulegt að fílarnir hafi dáið vegna eitrunar eða sjúkdóms. Þetta sé sennilega ekki vegna blásýru, sem veiðiþjófar noti, þar sem það myndi þá finnast í öðrum dýrum en fílum. Hann útilokar einnig miltisbrand en telur þetta mögulega vera vegna taugasjúkdóms.

Í frétt BBC kemur fram að flestir fílarnir virtust hafa fallið á jörðina beint á hausinn og að merki voru um að fílarnir hafi margir gengið í hringi þar til þeir féllu.