Um síðustu helgi fékk rit­höfundurinn Hildur Knúts­dóttir tölvu­póst sem hún hélt að væri frá Tone Myk­le­bost, mikils­virtum norskum þýðanda, sem óskaði eftir því að fá að lesa pdf út­gáfu nýjustu skáld­sögu hennar, Myrkrið milli stjarnanna.

„Nýja bókin mín er að koma út á morgun og ég fékk sem sagt bara tölvu­póst á laugar­dags­kvöldið frá Tone, að ég hélt. Ég hef alveg verið vöruð við þessu,“ sagði Hildur í sam­tali við blaða­mann á mánu­dag.

Hildur á­kvað þó að hafa varann á enda hafði hún heyrt af máli rit­höfundarins Björns Hall­dórs­sonar sem lenti í véla­brögðum bóka­þjófs skömmu áður en hann sendi frá sér sína fyrstu skáld­sögu í byrjun þessa árs. Þá segir hún Val­gerði Bene­dikts­dóttur hjá réttinda­stofu For­lagsins einnig hafa varað sig við.

„En samt var ég bara ‚Vá geggjað, Tone vill lesa bók frá mér!‘ Þannig ég trúði þessu alveg en á­kvað samt bara til vonar og vara að tala við Völu hjá réttinda­stofunni á For­laginu af því stundum þegar verið er að senda svona pdf þá vilja þau senda vatns­merkt… Þannig bara eins gott að ég spurði hana,“ segir Hildur.

Að sögn Hildar var hún mjög fegin að hún á­kvað að hafa fyrst sam­band við réttinda­stofuna áður en hún sendi hinni meintu Tone hand­rit skáld­sögu sinnar. Vala tók nefni­lega eftir því að eitt­hvað var ekki eins og það átti að vera. Tölvu­pósturinn var ekki frá Tone heldur frá svika­hrappi sem hafði farið þá leið að líkja eftir net­fangi Tone en breytt M-inu í eftir­nafni hennar í Rn, í til­raun til að blekkja Hildi.

Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, lenti nýlega í barðinu á bókaþjófnum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Maður veit ekkert í raun og veru, kannski hafa ein­hverjir gaman af því að leika guð.

Njósnarar bóka­heimsins

Bóka­þjófurinn virðist hafa mikla þekkingu á al­þjóð­lega út­gáfu­heiminum enda líkir hann fum­laust eftir orð­færi fag­fólks í bransanum og virðist vera rit­fær á fjöl­mörg tungu­mál, þar á meðal ís­lensku. Í ítar­legri grein um málið sem birtist í New York Magazine í ágúst, nefnir blaða­maðurinn Ree­ves Wi­edeman ýmis dæmi um þau belli­brögð sem bóka­þjófurinn hefur beitt.

„Það sem virtist mjög fágað var þekking þjófsins á bransanum. Söku­dólgurinn skrifaði eins og ein­hver úr út­gáfu­heiminum, stytti hand­rit í HD og Réttindi á ensku­mælandi markaði í REM, á sama tíma og hann skiptist á slúðri innan­búðar­manna,“ skrifar Wi­edeman.

Ein al­gengasta kenningin gengur út á að bóka­þjófurinn sé svo­kallaður bóka­út­sendari (e. literary scout) en vinna þeirra felst einkum í því að leita uppi á­huga­verð ný hand­rit sem þykja lík­leg til vin­sælda og ráð­leggja út­gef­endum eða kvik­mynda­fram­leið­endum um kaup á réttindum. Wi­edeman lýsir bóka­út­sendurum sem „njósnurum bóka­heimsins“ og eru þeir ein fárra starfs­greina sem gæti grætt á ó­út­gefnum hand­ritum. Í flestum til­vikum eru ó­út­gefin hand­rit verð­laus, nema um sé að ræða heims­fræga höfunda á borð við Margaret Atwood eða Ian McEwan, en bóka­þjófurinn hefur herjað á þau bæði.

„Maður veit ekkert í raun og veru, kannski hafa ein­hverjir gaman af því að leika guð. Ég myndi skilja þetta ef þetta væri demanta­iðnaðurinn, auð­vitað eru bækur demantar, auð­vitað eru rit­höfundarnir okkar demantar, þetta er fjár­sjóður. En það eru fæstir milljóna­mæringar í bóka­bransanum,“ segir Vala hjá For­laginu.

Höfundar og for­leggjarar sem hafa lent í bóka­þjófnum eru skiljan­lega nokkuð varir um sig en þetta flækir líka ó­um­deilan­lega öll þeirra sam­skipti við kollega sína til muna. Vala segir að þessi tor­tryggni geri það að verkum að það taki oft á tíðum of­boðs­lega langan tíma að svara einu bréfi.

„Mitt starf er sprett­hlaup, mitt starf flest í því að selja út­gáfu­rétt til er­lendra for­laga og þá gildir að hlaupa hratt. En maður getur ekki hlaupið eins hratt þegar maður er fullur af para­noju, ég hef lent í því að skrifa við­komandi út­gef­endum á Insta­gram og á Twitter og hringja í þá til að biðja þá um að stað­festa að þeir hafi verið að senda mér tölvu­póst. Þannig þetta tekur oft langan tíma.“

Hólm­fríður Úa Matthías­dóttir, út­gefandi For­lagsins.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Ég veit hvar þú býrð“

Vala segist vita um nokkra ís­lenska rit­höfunda á þeirra vegum sem hafa lent í sigti bóka­þjófsins og gerir ráð fyrir að höfundar hjá öllum for­lögum hér­lendis hafi lent í sam­bæri­legum at­vikum. Hún hefur sjálf þurft að verjast þjófnum nokkrum sinnum og lýsir hún því sem hrika­legri upp­lifun fyrir höfunda jafnt sem út­gef­endur.

„Þessi bransi gengur út á traust og þeir brjóta traustið svo of­boðs­lega. Skemma draumana og búa til ein­hverjar væntingar sem eru byggðar á sandi. Þetta er svo sið­laust,“ segir hún.

Út­gefandi For­lagsins, Hólm­fríður Úa Matthías­dóttir, lenti í því miður skemmti­lega at­viki í vikunni að fá senda hótun frá bóka­þjóf. Þjófurinn villti á sér heimildir og sendi Úu tölvu­póst í nafni Tone Myk­le­bost og bað hana um að senda sér pdf út­gáfu skáld­sögunnar Olíu eftir Svika­skáld, sem kom út nú á dögunum.

Með þessu var ég að segja ‚Við sjáum í gegnum þig.‘ Þá brást við­komandi ó­kvæða við og sendi mér skila­boð þar sem hann segir ‚Hæ! Einn daginn kem ég til þín. Ég veit hvar þú býrð‘.

„Ég sá strax að þetta var þessi svindlari sem við vorum að tala um, í fyrsta lagi vegna þess að ég var náttúr­lega með­vituð um að þetta var í gangi en svo sá ég líka net­fangið. Svo er það bara þannig að þessi norski þýðandi, þó ég hafi verið í sam­bandi við hana, þá er það ekki þannig að hún sé skrifa mér og biðja mig um hand­rit,“ segir Úa.

Úa sendi bóka­þjófnum því póst um hæl og spurði hvort hann myndi ekki vilja ræða málin við Sil­viu Cosimini, ítalskan þýðanda sem hann hefur áður þóst vera, og lét fylgja með falskt net­fang í nafni Sil­viu sem þjófurinn notaði.

„Með þessu var ég að segja ‚Við sjáum í gegnum þig.‘ Þá brást við­komandi ó­kvæða við og sendi mér skila­boð þar sem hann segir ‚Hæ! Einn daginn kem ég til þín. Ég veit hvar þú býrð‘.“

Þrátt fyrir að Úa hafi áður þurft að verjast á­sókn bóka­þjófsins þá lýsir hún at­vikinu sem fremur ó­þægi­legu og á­kvað hún, að hvatningu sam­starfs­fólks síns, að til­kynna málið til lög­reglu.

Fríða Ísberg, rithöfundur, lenti í því að handritinu að fyrstu skáldsögu hennar var rænt.
Fréttablaðið/Anton Brink

Rændi fyrstu skáld­sögunni

Rit­höfundurinn Fríða Ís­berg var einnig blekkt af bóka­þjófnum þegar hún fékk tölvu­póst frá aðila sem hún hélt að væri um­boðs­maður hennar, Laur­ence La­lu­yaux hjá RCW um­boðs­skrif­stofunni í London, en reyndist vera þjófurinn að villa á sér heimildir. Fríða sagði frá því í Lestinni á Rás 1í septem­ber hvernig hún fékk tölvu­póst þar sem bóka­þjófurinn óskaði eftir því að fá hand­ritið að Merkingu, fyrstu skáld­sögu hennar sem er væntan­leg frá For­laginu.

Þrátt fyrir að Fríða hafi verið vör um sig, meðal annars vegna slæmrar reynslu kollega sinna, féll hún fyrir véla­brögðum bóka­þjófsins.

„Þannig ég yfir­fer net­fangið hennar, einu sinni, tvisvar sinnum, kópera það, peista það, sé að þetta er net­fangið hennar. Þannig ég bara sendi bara til baka ‚Elsku Laur­ence hérna er pdf-ið af skáld­sögunni, láttu mig vita ef þú þarft eitt­hvað meira‘.“

Tölvu­póst­sam­skipti Fríðu við bóka­þjófinn héldu á­fram í nokkra daga og hann bað hana um að senda sér alls konar efni. Henni fór þó að gruna að maðkur væri í mysunni þegar hún tók eftir því að Laur­ence hljómaði öðru­vísi í þessum sam­skiptum og var hætt að nota sína venju­legu frasa. Fríða tók eftir mis­tökunum þegar hún rýndi nánar í net­fangið.

„Ema­ilið er rétt, það er allt rétt, það er myndin af prófílnum hennar er á sínum stað, undir­skriftin er á sínum stað, það bara stemmir allt, þetta er net­fangið hennar sem er að senda mér þessa pósta,“ segir hún.

Þegar Fríða skoðaði ítar­legri upp­lýsingar um net­fangið sá hún að búið var að skipta út tveimur stöfum á skamm­stöfun um­boðs­skrif­stofunnar. RCW Literary Agen­cy var orðið að RWC Literary Agen­cy.

„Ég náttúr­lega man það ekki einu sinni sjálf hvort þetta sé RCW eða RWC þegar ég er að segja fólki frá þessu, sem ég er ekkert mikið að gera svo sem. Þannig að ég bara svona horfi á þetta og bara ‚Já, ég var rænd‘,“ segir hún.

Þetta virðist vera alveg ó­skap­lega vandað svindl en hver til­gangurinn er erum við ekki enn þá búin að sjá. Þetta er ekki sér­ís­lenskt fyrir­bæri, þetta virðist vera út um allt, og allir eru eigin­lega jafn undrandi.

Ragn­heiður Tryggva­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Rit­höfunda­sam­bands Ís­lands.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ó­skap­lega vandað svindl

Rit­höfunda­sam­band Ís­lands (RSÍ) hefur brugðið á það ráð að vara rit­höfunda við bóka­þjófnum en sam­bandið hefur nokkrum sinnum sent út til­kynningu til með­lima þar sem varað er við blekkingar­póstum. Ragn­heiður Tryggva­dóttir, fram­kvæmda­stjóri RSÍ, segir sam­bandið hafa miklar á­hyggjur af þessu.

„Við lítum allt svona mjög al­var­legum augum og sér­stak­lega auð­vitað það að það er beitt svo lúmskum brögðum til að nálgast þetta,“ segir hún og vísar í áður­nefndar að­ferðir þar sem þjófurinn sendir tölvu­póst í annarra manna nafni og breytir einum staf í net­fanginu.

„Þetta virðist vera alveg ó­skap­lega vandað svindl en hver til­gangurinn er erum við ekki enn þá búin að sjá. Þetta er ekki sér­ís­lenskt fyrir­bæri, þetta virðist vera út um allt, og allir eru eigin­lega jafn undrandi.“

Eina mögu­lega leiðin sem Ragn­heiður í­myndar sér að hægt væri að græða eitt­hvað á slíkum hand­rita­þjófnaði er að selja réttindi ís­lenskra þýðinga til er­lendra raf­bóka­safna en hún tekur þó fram að það séu einungis vanga­veltur.

„Það er ein­hver skipu­lögð glæpa­starf­semi þarna í gangi. Hún er mjög vand­lega unnin og þess vegna höfum við mjög miklar á­hyggjur af því hvað það er sem þeir eru í raun og veru að sækjast eftir,“ segir hún.

Valgerður Benediktsdóttir hjá réttindastofu Forlagsins.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Bók­mennta­heimurinn rúinn trausti

Eins og áður sagði veit enginn fyrir víst hvert endan­legt mark­mið bóka­þjófsins er með fléttunni en ljóst er að hún teygir anga sína víða um heim. Rit­höfundar, for­leggjarar og þýð­endur í jafn ó­líkum löndum og Sví­þjóð, Taí­van, Ísrael, Kóreu og Banda­ríkjunum, þar sem þjófurinn er einna virkastur, hafa orðið fyrir barðinu.

Margir hafa snúið vörn í sókn og leitað ýmissa leiða til að reyna að góma þjófinn, þar á meðal með því að leiða fyrir hann beitu með sér­merktum hand­ritum og vonast til þess að þau dúkki upp ein­hvers staðar. Enginn hefur þó haft erindi sem erfiði en at­hygli vekur að hin stolnu hand­rit hafa raunar hvergi skotið upp kollinum, hvorki á sjó­ræningja­síðum né hjá bóka­út­sendurum.

Ein til­gáta sem er viðruð í áður­nefndri grein Ree­ves Wi­edeman er sú að hand­ritin séu raunar ekki mark­miðið í sjálfu sér. Nokkrir hakkarar sem Wi­edeman ræddi við sögðu að þjófnaðurinn líktist einna helst þjálfunar­búðum tölvu­þrjóta.

„Á­hættan var lítil, skot­markið var ekki sér­stak­lega tækni­fært, og það var sækjan­legt mark­mið – hand­ritið – sem ný­liðinn gæti komið með heim áður en hann færði sig yfir í að stela að­gangs­upp­lýsingum frá starfs­mönnum kjarna­kljúfa,“ skrifar Wi­edeman.

Sumir þol­endur hafa leitað að­stoðar lög­reglu­yfir­valda og banda­ríska al­ríkis­lög­reglan FBI hefur meira að segja hafið rann­sókn en ekkert hefur enn komið út úr því. Það hversu víða málið teygir anga sína gerir það ein­mitt ein­stak­lega erfitt í rann­sókn, auk þess sem þjófnaður skáld­skapar á pdf formi er senni­lega ekki efst á for­gangs­lista á­kæru­valdsins.

Hvort sem þjófurinn verður að lokum gómaður er ljóst að skaðinn sem hann hefur valdið er gífur­legur. Eins og gjarnan í bók­mennta­heiminum þá mælist sá skaði hins vegar hvorki í efnis­legum né fjár­hags­legum missi heldur fyrst og fremst í missi á trausti. Vala hjá For­laginu segist vera mjög sár yfir málinu.

„Ég er svo sár yfir því að ein­hver dirfist að beita svona blekkingum, ein­mitt af því að þetta er of­boðs­lega við­kvæmur bransi. Allir þessar draumar sem maður hefur fyrir hönd ís­lenskra bók­mennta, mér finnst vera vegið að þeim draumum með þessu, af því að traustið skiptir svo miklu máli og maður er orðinn svo para­noid að engu tali tekur. Það er búið að skemma þetta, það er búið að taka eitt­hvert sak­leysi og traust,“ segir hún.