Víð­tæk leit stendur nú yfir að fjögurra ára stúlku sem hvarf spor­laust á tjald­svæði í vestur­hluta Ástralíu aðfaranótt laugar­dags.

Stúlkan, Cleo Smith, dvaldi í tjaldi með fjöl­skyldu sinni skammt frá bænum Carnar­von þegar til­kynnt var um hvarf hennar snemma á laugar­dag. Lög­regla úti­lokar ekki að stúlkunni hafi verið rænt og hafa þyrlur og fjöl­mennir leitar­flokkar verið ræstir út til leitar.

Í frétt News.com.au kemur fram að for­eldrar stúlkunnar hafi síðast vitað af henni í tjaldinu klukkan 1:30 að­fara­nótt laugar­dags. Klukkan sex að morgni var hún aftur á móti horfin.

Málið hefur vakið tals­verða at­hygli í Ástralíu og hefur móðir hennar, Elli­e Smith, biðlað til þeirra sem hugsan­lega vita hvar hún er að hafa sam­band við lög­reglu.

John Munday, sem fer fyrir rann­sókn málsins hjá lög­reglu, segir við ástralska fjöl­miðla að lög­regla leggi allt kapp á að finna stúlkuna en enn sem komið er hafa engar vís­bendingar borist. „Við gerum allt sem í okkar valdi stendur og úti­lokum ekkert. Við munum leita að henni eins lengi og við þurfum,“ segir hann.

Munday segir að lög­regla hafi fengið fjöl­margar á­bendingar frá al­mennum borgurum vegna málsins og segir hann að lög­regla sé þakk­lát fyrir það. „En því miður þá hefur það ekki skilað okkur neinum svörum um það hvar Cleo er niður­komin.“

Ekki hefur verið úti­lokað að Cleo hafi vaknað og ráfað sjálf frá tjaldinu. Munday telur aftur á móti lík­legt að hún hefði ekki komist mjög langt og að líkindum fundist ef hún væri enn á svæðinu. Þá vakti það grun­semdir lög­reglu að svefn­poki stúlkunnar var hvergi sjáan­legur þegar for­eldrar hennar vöknuðu að morgni laugar­dags og sáu að hún var horfin.