Íslendingsins Seans Aloysius Marius Bradley, 63 ára fyrrverandi fiðluleikara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands til margra ára, hefur verið saknað í meira en eitt og hálft ár. Lögreglan á Suðurlandi lýsti eftir Sean 23. mars síðastliðinn bæði hérlendis og hjá Interpol en ekkert hefur spurst til hans.

Fjölskylda Seans er búsett í Bretlandi en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru það vinir hans á Íslandi sem hvöttu fjölskylduna til að láta lýsa eftir honum.

Hann hafði verið í samskiptum við vini sína hérlendis á samfélagsmiðlum og sagt þeim að hann hefði farið til Spánar með íslenskri vinkonu sinni. Þá sem þekktu hann hérlendis fór hins vegar að gruna að einhver annar væri að eiga samskipti við þá undir hans nafni.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir lögregluna ekki geta staðfest að Sean hafi farið til Spánar. Hann átti bókað flug í tiltekna vél til Spánar og flugsætið var notað en lögreglan vill ekki staðfesta að það hafi verið hann sem notaði sætið. Þá hefur ekkert sést til hans á Spáni.

Fréttablaðið hefur verið í samskiptum við fjölmarga vini Seans en að þeirra sögn var hann mjög flughræddur. Aðpurður hvort það teljist ekki skrýtið að flughræddur maður fari skyndilega með flugi úr landi, segir Oddur málið í heild sinni vera skrýtið.

„Hann hafði verið í sambandi við einstaklinga hér heima og þetta virðist hafa verið mikil skyndiákvörðun að fara, ef hann hefur farið. Mér finnst málið bara allt skrýtið. Ekkert þetta eitthvað umfram annað,“ segir Oddur.

„Við höfum saknað hans í nokkur ár"

Fiðluleikarinn Sean Bradley hvarf sumarið 2018. Hann hafði spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi ásamt því að kenna við Tónlistarskólann í Hafnarfirði um árabil. Margrét Þorsteinsdóttir, fiðluleikari hjá Sinfóníunni, kenndi og spilaði með Sean á sínum tíma. „Hann var svakalega hæfileikaríkur fiðluleikari,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. Helgi Bragason, fyrrverandi aðstoðarskólastjóri tónlistarskólans, tekur í sama streng: „Hann var frábær listamaður og er vonandi.“

Hvarf Seans bar til með vægast sagt dularfullum hætti. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafði hann mælt sér mót við vinkonu sína í júní 2018. Þau ætluðu að keyra saman til Reykjavíkur og fara í kirkju. Hann mætti hins vegar ekki og þrátt fyrir ítrekuð símtöl náði hún ekki í hann. Ekkert spurðist til hans um tíma og kom sonur hans meðal annars til Íslands til að heimsækja föður sinn. Hann fann hins vegar föður sinn hvergi. Sean sagði síðan við vini sína á samfélagsmiðlum að hann væri kominn til Spánar.

Önnur vinkona Seans á Suðurlandi, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir að hans sé saknað af þeim sem hann þekktu. „Við höfum saknað hans í nokkur ár,“ segir hún.

17myn10mynl06250406_sea_16.jpg

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar var Sean skráður til heimilis að Austurvegi 34 á Selfossi

„Það síðasta sem við heyrðum af honum, þá var hann á Spáni. Hann sagðist vera kominn í búdda-klaustur að stunda íhugun, hann hefði það gott og við ættum að láta hann í friði,“ segir hún og bætir við að þetta hafi komið þeim sem þekktu hann í opna skjöldu.

„Það fannst okkur öllum mjög skrýtið því hann var ekki fyrir að fljúga. Hann vildi helst ekki fara upp í flugvél,“ segir hún. Sean er að sögn vina það flughræddur að það hafi haldið honum frá því að heimsækja fjölskyldu sína á Bretlandseyjum. Sean er með gigt og hreyfiskertur sökum þess. Hann gat einungis gengið stuttar vegalengdir án stuðnings. „Svo hvarf hann bara af Facebook og við höfum ekki heyrt neitt,“ segir hún.

Allar rannsóknarkenningar opnar

Íslenska konan sem fór með Sean til Spánar bjó með honum á heimili hans um tíma en þau áttu ekki í rómantísku sambandi að því er Fréttablaðið kemst næst. Lögreglan ræddi við hana á heimili sínu á Selfossi en að sögn lögreglunnar liggur hún ekki undir grun. Lögreglan á Suðurlandi gerði ásamt tæknideild lögreglu ítarlega leit á heimili Seans í síðasta mánuði. Að sögn lögreglu var íbúðin grandskoðuð en engin ummerki voru um að neitt saknæmt hefði átt sér stað á heimili hans.

„Við erum með allar rannsóknarkenningar opnar í rauninni. Það eru sex kenningar sem geta komið upp þegar maður hverfur. Maður getur hafa veikst og lent einhver staðar inni á sjúkrahúsi, hann getur hafa ákveðið að láta sig hverfa, hann getur hafa verið drepinn, og svo framvegis. Það er í raun allt opið,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi og stjórnandi rannsóknarinnar.

Rannsókn málsins stendur enn yfir en Oddur segir málið vera flókið og erfitt til rannsóknar, sérstaklega þegar tilkynning berst lögreglunni meira en einu og hálfu ári seinna. „Það gerir allt erfiðara,“ segir Oddur.