Curiosity, könnunarfar NASA, sendi frá sér ljósmyndir af Mars nýverið þar sem sjá má eitthvað sem líkist hurðaropi meitlað inn í bergið á plánetunni.
Ljósmyndin hefur vakið mikla athygli á netinu og eru samsæriskenningarsmiðir nú þegar byrjaðir að reyna útskýra opið í berginu.
Prófessor Sanjeev Gupta hjá Imperial College London segir hins vegar í samtali við Daily Telegraph að hurðaropið hafi myndast í gegnum eðlilegt jarðfræðilegt ferli. Hann segir svarið sjást á ljósmyndinni sjálfri þar sem sjá má brot í berginu og af þeim sökum myndast hellir sem líkist hurðaropi en slíkt gerist á jörðinni líka.
Opið myndaðist líklegast fyrir mörgum milljónum árum síðan.
NEWS 🚨: NASA has released a new image of a door-shaped rock formation captured by Curiosity rover pic.twitter.com/Le9QaebstU
— Latest in space (@latestinspace) May 15, 2022
Í byrjun janúar fann Curiosity kolefnistegund í nokkrum sýnum af yfirborði Mars sem gætu bent til þess að líffræðileg ferli hafi átt sér stað á plánetunni rauðu. Uppgötvunin bendir þó ekki endilega til þess að líf hafi verið á Mars til forna.
Kolefni finnst í öllum lífverum og kolefnistegundin sem fannst á Mars, kolefni-12, er yfirleitt talin vera merki um lífræna ferla. Tekin voru 24 sýni af fjölbreyttum svæðum á yfirborði Mars og tæplega helmingur sýnanna innihélt þessa tegund í miklum mæli.
