Curiosity, könnunar­far NASA, sendi frá sér ljós­myndir af Mars ný­verið þar sem sjá má eitt­hvað sem líkist hurðar­opi meitlað inn í bergið á plánetunni.

Ljós­myndin hefur vakið mikla at­hygli á netinu og eru sam­særis­kenningar­smiðir nú þegar byrjaðir að reyna út­skýra opið í berginu.

Prófessor Sanjeev Gupta hjá Imperial College London segir hins vegar í sam­tali við Daily Telegraph að hurðar­opið hafi myndast í gegnum eðli­legt jarð­fræði­legt ferli. Hann segir svarið sjást á ljós­myndinni sjálfri þar sem sjá má brot í berginu og af þeim sökum myndast hellir sem líkist hurðar­opi en slíkt gerist á jörðinni líka.

Opið myndaðist líklegast fyrir mörgum milljónum árum síðan.

Í byrjun janúar fann Curiosity kol­efnis­­tegund í nokkrum sýnum af yfir­­­borði Mars sem gætu bent til þess að líf­­fræði­­leg ferli hafi átt sér stað á plánetunni rauðu. Upp­­­götvunin bendir þó ekki endi­­lega til þess að líf hafi verið á Mars til forna.

Kol­efni finnst í öllum líf­verum og kol­efnis­­tegundin sem fannst á Mars, kol­efni-12, er yfir­­­leitt talin vera merki um líf­ræna ferla. Tekin voru 24 sýni af fjöl­breyttum svæðum á yfir­­­borði Mars og tæp­­lega helmingur sýnanna inni­­hélt þessa tegund í miklum mæli.

Curiosity tók þessa sjálfu árið 2019 á svæði sem hefur fengið nafnið Glen Etive
Ljósmynd/Nasa