Dular­fullt krabba­fár í Gerðunum við Miklu­braut í 108 Reykja­vík er ekkert svo dular­fullt að mati Sindra Gísla­sonar, doktors í sjávarlíffræði við Fræða­setur Suður­nesja. Krabbar virðast hafa vanið komur sínar í garða íbúa í hverfinu að undan­förnu.

Lára Kristín Þor­valds­dóttir, íbúi í Akur­gerði, birti mynd af krabba úti á palli heima hjá sér í í­búa­hópi 108 Reykja­víkur á Face­book. „Þessi skrítni gestur mætti á pallinn okkar í morgun/nótt, ein­hver sem kannast við að sakna hans? Eða er með út­skýringu á þessu fyrir okkur?“ spyr Lára inni á hópnum.

Færslan hefur vakið mikla at­hygli, enda ekki á hverjum degi sem að sjávar­dýr birtast inni í görðum fólks. Glöggir í­búar benda Láru hins­vegar á að hið sama hafi verið uppi á teningnum í hverfinu í síðasta mánuði. Þá birti íbúi mynd af slíkum krabba úti í garði hjá sér.

Einn íbúa veltir fyrir sér hvort krabbarnir hafi mögu­lega sloppið frá Fiski­kónginum, vin­sælli fisk­búð í hverfinu. Annar segist hafa heyrt í búðar­eig­endum, sem hafi talið það af og frá, þar sem þeir selji ekki lifandi krabba. Lára og fjöl­skylda segist í þræðinum hafa sleppt krabbanum lausum, heilum á húfi í sjóinn.

Fréttablaðið/Skjáskot

Skilur að fólk sé hissa að sjá krabba

„Ég var búinn að sjá þetta,“ segir Sindri hress í bragði í sam­tali við Frétta­blaðið. Sindri er einn fremstra fræðinga hér á landi þegar það kemur að krabba­tegundum.

„Þetta er bog­krabbi. Hann hefur lík­legast komist þangað með ein­hverjum veiði­manni og sloppið eða þá að mávur hefur borið hann með sér. Þetta er enginn land­krabbi,“ segir Sindri léttur. Hann segist skilja vel að fólk sé hissa á að sjá krabba inni í miðri borg.

Að­spurður að því hvernig svo geti verið að krabbar dúkki upp í görðum tvisvar í sama hverfi segir Sindri ljóst að þarna sé á ferðinni dug­legur krabba­veiði­maður. „Hvort sem það er mávur eða maður,“ segir hann hlæjandi.

Ljóst er að Lára og fjöl­skylda hefur brugðist rétt við, miðað við svör Sindra um hvað skuli gera þegar við­komandi rambar á krabba úti í garði. „Þeir geta lifað tölu­vert lengi á þurru landi, áður en þeir þurfa að komast í salt­vatn, það eru alveg nokkrir klukku­tímar,“ segir Sindri. „Bara ekki setja hann í fersk­vatn, þá deyr hann.“

Fréttablaðið/Skjáskot