Dularfullt krabbafár í Gerðunum við Miklubraut í 108 Reykjavík er ekkert svo dularfullt að mati Sindra Gíslasonar, doktors í sjávarlíffræði við Fræðasetur Suðurnesja. Krabbar virðast hafa vanið komur sínar í garða íbúa í hverfinu að undanförnu.
Lára Kristín Þorvaldsdóttir, íbúi í Akurgerði, birti mynd af krabba úti á palli heima hjá sér í íbúahópi 108 Reykjavíkur á Facebook. „Þessi skrítni gestur mætti á pallinn okkar í morgun/nótt, einhver sem kannast við að sakna hans? Eða er með útskýringu á þessu fyrir okkur?“ spyr Lára inni á hópnum.
Færslan hefur vakið mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem að sjávardýr birtast inni í görðum fólks. Glöggir íbúar benda Láru hinsvegar á að hið sama hafi verið uppi á teningnum í hverfinu í síðasta mánuði. Þá birti íbúi mynd af slíkum krabba úti í garði hjá sér.
Einn íbúa veltir fyrir sér hvort krabbarnir hafi mögulega sloppið frá Fiskikónginum, vinsælli fiskbúð í hverfinu. Annar segist hafa heyrt í búðareigendum, sem hafi talið það af og frá, þar sem þeir selji ekki lifandi krabba. Lára og fjölskylda segist í þræðinum hafa sleppt krabbanum lausum, heilum á húfi í sjóinn.

Skilur að fólk sé hissa að sjá krabba
„Ég var búinn að sjá þetta,“ segir Sindri hress í bragði í samtali við Fréttablaðið. Sindri er einn fremstra fræðinga hér á landi þegar það kemur að krabbategundum.
„Þetta er bogkrabbi. Hann hefur líklegast komist þangað með einhverjum veiðimanni og sloppið eða þá að mávur hefur borið hann með sér. Þetta er enginn landkrabbi,“ segir Sindri léttur. Hann segist skilja vel að fólk sé hissa á að sjá krabba inni í miðri borg.
Aðspurður að því hvernig svo geti verið að krabbar dúkki upp í görðum tvisvar í sama hverfi segir Sindri ljóst að þarna sé á ferðinni duglegur krabbaveiðimaður. „Hvort sem það er mávur eða maður,“ segir hann hlæjandi.
Ljóst er að Lára og fjölskylda hefur brugðist rétt við, miðað við svör Sindra um hvað skuli gera þegar viðkomandi rambar á krabba úti í garði. „Þeir geta lifað töluvert lengi á þurru landi, áður en þeir þurfa að komast í saltvatn, það eru alveg nokkrir klukkutímar,“ segir Sindri. „Bara ekki setja hann í ferskvatn, þá deyr hann.“
