Dularfullir og háværir hvellir heyrðust um klukkan eitt í fyrrinótt í Árbænum.

Íbúar í götunni Hábæ segja óhljóðin hafa hljómað eins og byssuskot, og heyrðust þrír til fjórir hvellir með stuttu millibili.

Hábær snýr í átt að Elliðaárdal og er vanalega mikil kyrrð og ró á svæðinu og má stundum heyra niðinn í Elliðaánum og í kirkjuklukkum á sunnudagsmorgnum. Því var íbúum eðlilega brugðið þegar hvellir heyrðust um miðja nótt.

„Þetta hljómaði eins og skot úr riffli,“ lýsir einn íbúanna. „Ég lá bara uppi í rúmi og þorði ekki að kíkja út.“

Annar tekur undir með fyrri íbúanum og segir hvellina hafa verið of háværa til að vera úr flugeldum. Þetta hafi hljómað eins og byssuskot og hafi mögulega komið úr átt Árbæjarskóla og Árbæjarkirkju.

Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri hjá lögreglustöð fjögur, segist ekki kannast við málið. Engin tilkynning haf borist lögreglu.

„En ef um er að ræða skotvopn þá verður það að sjálfsögðu rannsakað í þaula. Á þessum tíma ársins er mikið um flugeldaskot, mögulega hafi einhverjir aðilar verið að leika sér mikið litlar sprengjur eftir áramót og þrettándann,“ segir Valgarður.