Stórum drónum eða flygildum á vegum lögreglunnar hefur undanfarið verið flogið reglulega frá Keflavíkurflugvelli og yfir byggð í Reykjanesbæ. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttamiðilsins 24 sem höfðu samband við öll lögregluembætti á landinu til að spyrjast fyrir um notkun lögreglunnar á drónum.
Að sögn 24 hafa flest lögregluembætti á landinu keypt sér dróna til eftirlits en alls eru 22 slík tæki í eigu lögreglunnar.
„Flygildi hafa verið í notkun hjá lögreglunni síðan 2016. Í dag eru þau 22 talsins í flestum lögregluembættum landsins. Þessi tæki eru keypt, af hverju embætti fyrir sig, í gegnum umboðsaðila á Íslandi. Flygildin eru af mörgum tegundum en öll tækin eru frá framleiðandanum DJI,“ segir Jón Már Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og yfirmaður sérsveitarinnar.
Að sögn Jóns Más hafa drónarnir verið notaðir við vettvangsrannsóknir, leit og björgun, yfirsýn vegna náttúruhamfara og á stórum samkomum.
Í svörum frá embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum kom þó fram að lögreglan á Suðurnesjum hefði hefði ekki neina dróna undir höndum. Að sögn blaðamanns 24 þótti staðhæfingin „skrítin í ljósi þeirra fjölmörgu myndskeiða sem 24 hefur borist og sýna stóra dróna á flugi yfir Reykjanesbæ.“
Drónar eru flestir forritaðir þannig að það er nánast ómögulegt að fljúga þeim nálægt alþjóðaflugvöllum vegna hafta sem eru innbyggð í stýrikerfi þeirra.
„Til þess að útskýra á einfaldan hátt þá má segja að það sé innbyggð ósýnileg girðing í stjórnkerfum þessara dróna sem gerir það að verkum að yfirvöld geta afmarkað ákveðin svæði sem bannsvæði og því ómögulegt að fljúga nálægt þeim eða inn á þau,“ segir í umfjöllun 24.
Þau svör fengust þó loks að umræddir drónar væru á vegum sérsveitar ríkislögreglustjóra sem hefur æfingasvæði í Keflavík. Furðu þótti sæta að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hætti að svara fyrirspurnum 24 vegna drónaflugs frá Keflavíkurflugvelli en miðillinn hefur að eigin sögn fjölda myndskeiða sem staðfesta þessar frásagnir.
Ekki er vitað nákvæmlega hvert markmiðið er með notkun drónanna í Reykjanesbæ en að sögn 24 þá hefur hún í för með sér aukið eftirlit með almenningi.
„Notkun á drónum til eftirlits er hins vegar á gráu svæði. Það þýðir að lögregluembætti geta nýtt sér ákvæði í Persónuverndarlögum til þess að komast undan því að þurfa að fá dómsúrskurð og þar af leiðandi heimild. Þannig geta þeir notað dróna til þess að fylgjast með borgurum landsins án þess að viðkomandi komi nokkurn tímann til með að vita það,“ segir í umfjöllun 24.