Stórum drónum eða flygildum á vegum lög­reglunnar hefur undan­farið verið flogið reglu­lega frá Kefla­víkur­flug­velli og yfir byggð í Reykja­nes­bæ. Þetta kemur fram í um­fjöllun frétta­miðilsins 24 sem höfðu sam­band við öll lög­reglu­em­bætti á landinu til að spyrjast fyrir um notkun lög­reglunnar á drónum.

Að sögn 24 hafa flest lög­reglu­em­bætti á landinu keypt sér dróna til eftir­lits en alls eru 22 slík tæki í eigu lög­reglunnar.

„Flygildi hafa verið í notkun hjá lög­reglunni síðan 2016. Í dag eru þau 22 talsins í flestum lög­reglu­em­bættum landsins. Þessi tæki eru keypt, af hverju em­bætti fyrir sig, í gegnum um­boðs­aðila á Ís­landi. Flygildin eru af mörgum tegundum en öll tækin eru frá fram­leiðandanum DJI,“ segir Jón Már Jóns­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá Ríkis­lög­reglu­stjóra og yfir­maður sér­sveitarinnar.

Að sögn Jóns Más hafa drónarnir verið notaðir við vett­vangs­rann­sóknir, leit og björgun, yfir­sýn vegna náttúru­ham­fara og á stórum sam­komum.

Í svörum frá em­bætti Lög­reglu­stjórans á Suður­nesjum kom þó fram að lög­reglan á Suður­nesjum hefði hefði ekki neina dróna undir höndum. Að sögn blaða­manns 24 þótti stað­hæfingin „skrítin í ljósi þeirra fjöl­mörgu mynd­skeiða sem 24 hefur borist og sýna stóra dróna á flugi yfir Reykja­nes­bæ.“

Drónar eru flestir for­ritaðir þannig að það er nánast ó­mögu­legt að fljúga þeim ná­lægt al­þjóða­flug­völlum vegna hafta sem eru inn­byggð í stýri­kerfi þeirra.

„Til þess að út­skýra á ein­faldan hátt þá má segja að það sé inn­byggð ó­sýni­leg girðing í stjórn­kerfum þessara dróna sem gerir það að verkum að yfir­völd geta af­markað á­kveðin svæði sem bann­svæði og því ó­mögu­legt að fljúga ná­lægt þeim eða inn á þau,“ segir í um­fjöllun 24.

Þau svör fengust þó loks að um­ræddir drónar væru á vegum sér­sveitar ríkis­lög­reglu­stjóra sem hefur æfinga­svæði í Kefla­vík. Furðu þótti sæta að Lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum hætti að svara fyrir­spurnum 24 vegna dróna­flugs frá Kefla­víkur­flug­velli en miðillinn hefur að eigin sögn fjölda mynd­skeiða sem stað­festa þessar frá­sagnir.

Ekki er vitað ná­kvæm­lega hvert mark­miðið er með notkun drónanna í Reykja­nes­bæ en að sögn 24 þá hefur hún í för með sér aukið eftir­lit með al­menningi.

„Notkun á drónum til eftir­lits er hins vegar á gráu svæði. Það þýðir að lög­reglu­em­bætti geta nýtt sér á­kvæði í Per­sónu­verndar­lögum til þess að komast undan því að þurfa að fá dóms­úr­skurð og þar af leiðandi heimild. Þannig geta þeir notað dróna til þess að fylgjast með borgurum landsins án þess að við­komandi komi nokkurn tímann til með að vita það,“ segir í um­fjöllun 24.