Dular­full skila­boð má sjá á aug­lýsinga­skiltum við gatna­mót Suður­lands­brautar og Kringlu­mýrar­brautar nú í morgun.

Þar birtast skila­boð þar sem fram kemur að við­komandi hafi verið hakkaður. Frétta­blaðinu er ekki kunnugt um hvort um sé að ræða aug­lýsingu eða raun­veru­lega hökkun.

„Úps! Lítur út fyrir að ég hafi hakkað þig. Krítísk gögn hafa lekið,“ segir meðal annars á aug­lýsinga­skiltinu sem lítur út eins og tölvu­skjár.

Dularfull skilaboð ekki ný af nálinni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dular­fullir hlutir birtast á aug­lýsinga­skjám lands­manna. Fyrstu dagar þessa árs ein­kenndust af lista­verka­sýningunni Upp­lausn á aug­lýsinga­skiltum borgarinnar.

Þar mátti sjá raf­ræn ab­strakt­verk úr smiðju Hrafn­kels Sigurðs­sonar á aug­lýinga­skiltum lands­manna. Árið 2020 stóð lista­maðurinn CozY­boy svo fyrir ó­venju­legum skila­boðum á aug­lýsinga­skjám. Þar mátti sjá ó­venju­leg skila­boð sem vöktu at­hygli veg­far­enda eins og: „Nine Lives – Says Who?? Bubbi Morthens !!! LOL Gimmi A Break!“

Fréttablaðið/Aðsend