Dularfull skilaboð má sjá á auglýsingaskiltum við gatnamót Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar nú í morgun.
Þar birtast skilaboð þar sem fram kemur að viðkomandi hafi verið hakkaður. Fréttablaðinu er ekki kunnugt um hvort um sé að ræða auglýsingu eða raunverulega hökkun.
„Úps! Lítur út fyrir að ég hafi hakkað þig. Krítísk gögn hafa lekið,“ segir meðal annars á auglýsingaskiltinu sem lítur út eins og tölvuskjár.
Dularfull skilaboð ekki ný af nálinni
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dularfullir hlutir birtast á auglýsingaskjám landsmanna. Fyrstu dagar þessa árs einkenndust af listaverkasýningunni Upplausn á auglýsingaskiltum borgarinnar.
Þar mátti sjá rafræn abstraktverk úr smiðju Hrafnkels Sigurðssonar á auglýingaskiltum landsmanna. Árið 2020 stóð listamaðurinn CozYboy svo fyrir óvenjulegum skilaboðum á auglýsingaskjám. Þar mátti sjá óvenjuleg skilaboð sem vöktu athygli vegfarenda eins og: „Nine Lives – Says Who?? Bubbi Morthens !!! LOL Gimmi A Break!“
