Andrzej Duda, sitjandi forseti Póllands, bar nauman sigur úr býtum í pólsku forsetakosningunum sem fram fóru í gær.

Hlaut hann 51.2% atkvæða og hafði þar með betur gegn Rafal Trzaskowski, borgarstjóra Varsjár.

Kjörsókn var 68,2%, ein sú mesta í sögu landsins. Mikil spenna var í kringum kosningarnar allt fram að lokun kjörstaða en fyrstu útgönguspár í gær spáðu fyrir um endurkjör Duda.

Landskjörstórn greindi frá niðurstöðunum í dag og sagði að talningu væri lokið í 99% kjördæma. Enn ættu sumir kjörstaðir eftir að greina frá niðurstöðum sínum en ekki er talið að það geti haft áhrif á lokaniðurstöðuna.

Önnur umferð forsetakosninganna fór fram í gær en enginn frambjóðandi hlaut meirihluta atkvæða í fyrstu umferð sem fram fór í lok júní.

Tveir ólíkir frambjóðendur

Stóð valið nú milli íhaldsmannsins Andrzej Duda, frambjóðanda stjórnarflokksins Lög og réttar, og hins frjálslynda borgarstjóra Rafal Trzaskowski.

Hefur Trzaskowski meðal annars talað fyrir auknum réttindum kvenna og hinsegin fólks.

Duda hefur hefur verið gagnrýninn á stefnu Evrópusambandsins og verið lýst sem bandamanni Donald Trumps Bandaríkjaforseta.

Í kosningabaráttuinni sagðist hann meðal annars vilja leggja fram breytingu á stjórnarskrá landsins sem myndi banna samkynja pörum að ættleiða börn.

4500 á kjörskrá

Á Ís­landi gátu pólskir ríkis­borgarar kosið í pólska sendi­ráðinu, sem er til húsa í Þórunnar­túni, til klukkan níu í gærkvöld. Um 4500 Pól­verjar eru á kjör­skrá á Ís­landi.

Endurkjör Duda verður að teljast mikill léttir fyrir sitjandi stjórnvöld í Póllandi en forsetinn hefur þar neitunarvald í umdeildum málum og getur haft frumkvæði að lagabreytingum.

Fréttin hefur verið uppfærð.