Heppnum matargestum steikhússins Hawksmoor í Manchester var fyrir mistök gefin 700 þúsund króna rauðvínsflaska í stað flösku sem þeir pöntuðu sér og átti að kosta 40 þúsund. BBC greinir frá þessu.

Atvikið átti sér stað í gærkvöldi en gestirnir sátu við barinn að snæðingi þegar þau pöntuðu sér rauðvðínsflösku frá Bordeaux héraði í Frakklandi sem kostaði 260 pund eða um 40 þúsund krónur. Fyrir mistök þjónsins fengu þau þó vitlausa flösku sem reyndist vera sautján sinnum dýrari, kostaði 4.500 pund eða um 700 þúsund krónur.

Vínið sem er af gerðinni Chateau le Pin Pomerol, 2001 árgerð, er afar sjaldgæft en aðeins voru framleiddir um 500 kassar af því. Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en seinna um kvöldið og tilkynnti staðurinn um þau á Twitter-reikningi sínum. Eigendur Hawksmoor-steikhússins virðast hafa tekið atvikinu vel og segjast ekki áfellast starfsmanninn sem gerði mistökin.

Hinir heppnu matargestir virðast hafa kunnað gott að meta en þeir báðu um aðra flösku eftir að hafa klárað sína. Ekki var þó önnur flaska til á staðnum enda ekki beint um vín að ræða sem er auðvelt að verða sér úti um.

Hér að neðan má sjá Twitter-færslur steikhússins um málið.