Yfirstjórn og starfsmenn Reykjavíkurborgar drukku áfengi fyrir yfir hálfa milljón króna á kostnað borgarbúa á Vinnustofu Kjarvals við Austurvöll. Þetta kemur fram í sundurliðuðum reikningum sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Alls var keypt sterkt vín fyrir rúmar 64 þúsund krónur, bjór fyrir tæpar 104 þúsund krónur og léttvín fyrir rúmar 381 þúsund krónur. Meðal þess sem var keypt eru glös af Chardonnay, Lagavulin 16 ára, Hennessy VSOP og kokteilar á borð við Moscow Mule.

Starfsmenn á skrifstofu Reykjavíkurborgar hafa aðgang að Vinnustofu Kjarvals, sem er vinnu- og samkomurými við Austurvöll, með sérstökum samningi. Var talið að þörf væri á aðstöðunni vegna vinnufunda, starfsdaga og starfsþróunarsamtala ásamt fleiru. Borgin greiðir alls 1,6 milljónir króna fyrir ársaðgang. Um er að ræða þróunarverkefni til eins árs og rennur samningurinn út um mánaðamótin. Á þá að meta hvort verkefninu verði haldið áfram.

Samkvæmt upplýsingum frá borgarritara var aðstaðan á vinnustofunni vel nýtt þar til kórónaveirufaraldurinn skall á en hefur ekki verið notuð í jafn miklum mæli eftir að samkomutakmarkanir tóku gildi.

Alls voru gefin út ellefu aðgangskort, sex til sviðsstjóra, tvö til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara auk skrifstofustjóra borgarstjórnar, borgarlögmanns og mannréttindastjóra. Samkvæmt reikningunum var áfengi í nokkrum tilfellum keypt á starfsdögum og á fundum.

„Margt í yfirlitinu og afritum reikninga bendir til þess að bruðlað hafi verið með opinbert fé,“ segir í bókun Björns Gíslasonar og Jórunnar Pálu Jónasdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði sem ræddi málið í vikunni. Þau benda á að rúmlega 23 þúsund króna reikningur var endurgreiddur nokkrum dögum eftir fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í gagnbókun Sabine Leskopf, Alexöndru Briem og Ellen Calmon, fulltrúa Samfylkingarinnar og Pírata, segir að upphæðirnar falli ekki undir ábyrgð ráðsins og því sé ekki við hæfi að taka fram fyrir hendur stjórnenda borgarinnar.

Fram kom í nýlegu svari borgarritara við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, að starfsmenn hafi á tíu mánaða tímabili notið veitinga fyrir rúmar 800 þúsund krónur á Vinnustofu Kjarvals.

Í reikningum sem lagðir voru fram fyrir innkaupa- og framkvæmdaráð nær heildarupphæð veitinganna yfir 1,2 milljónir króna, þar af eru meira en 650 þúsund krónur í mat. Þar inni eru útgjöld vegna EFA-verkefnisins, sem er undirbúningur að Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, en þar greiðir mennta- og menningarmálaráðuneytið helming kostnaðarins. Þá eru einnig reikningar frá skrifstofu borgarstjóra og reikningur fyrir jólaboði þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness sem falla ekki undir samning borgarinnar við Vinnustofu Kjarvals.

Í samningnum við borgina er undirstrikað að ekki sé heimilt að taka myndir af gestum staðarins. Þá er tekið fram að á opnunartíma sé boðið upp á kaffi og kolsýrt vatn, rukkað er sérstaklega fyrir kaffidrykki og aðra gosdrykki. Samkvæmt reikningunum voru keyptir kolsýrðir drykkir fyrir tæpar 21 þúsund krónur og kaffidrykkir fyrir rúmar 54 þúsund krónur. Í nokkrum tilfellum var um að ræða tónik sem keypt var samhliða gini.