Fjór­tán ára drengur er talinn vera látinn eftir að hann týndist í Thames ánni í London eftir að hafa kælt sig þar. Leitað var drengsins í tvo tíma í gær­kvöldi en í morgunn var gefin sú yfir­lýsing út að drengurinn væri talinn látinn. BBC greinir frá.

Drengurinn hefur ekki enn verið nefndur á nafn en við­bragðs­aðilar leituðu að honum í sam­vinnu með að­stand­endum hans. Drengurinn er talinn hafa verið að kæla sig þegar hann lenti í vand­ræðum við að synda.

Mikil hitabylgja skall á Bretland um helgina, hitamet hafa fallið en hitinn hefur víða í dag mælst um og yfir fjörutíu gráður.

The Telegraph greinir frá því að að­stoðar­slökkvi­liðs­stjóri í London hafi beðið fólk um að fara var­lega þegar það stingur sér til sunds í hita­bylgju sem þessari. Vatnið geti verið kaldara en fólk býst við og það geti verið sjokk fyrir líkamann.

Þá sagði hann meðal­hiti Thames árinnar á sumrin væri einungis tólf gráður, þó það geti verið að hún sé ögn hlýrri núna vegna hita­bylgjunnar.

Daily Mail greinir frá því að þrettán hafi látist síðustu daga af völdum tengdum hita­bylgjunni.

Sjö­tugur maður drukknaði í gær við Wig­hteyju eftir að hafa stungið sér til sunds til að kæla sig niður. Maðurinn var dreginn í land þar sem björgunar­aðilar reyndu í fjöru­tíu mínútur að bjarga manninum. Hann var úr­skurðaður látinn á staðnum.

Maður á tví­tugs­aldri lést einnig í gær en hann var dreginn úr sund­laug í vatns­garði, hann var úr­skurðaður látinn á staðnum.

Þetta eru einungis nokkur dæmi, en talið er að fleiri hafi átt svipuð örlög og þeir sem nefndir hér að ofan.