Bæði Elísabet Bretlandsdrottning og Philip prins, eiginmaður hennar, hafa sést aka beltislaus undir stýri undanfarinn sólarhring. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að Philip prins hafi lent í hörðum árekstri á fimmtudaginn.

Daginn eftir slysið sást Elísabet aka Range Rover-bifreið sinni beltislaus, rétt hjá þeim stað þar sem Philip lenti í slysinu. Drottningin lærði að keyra þegar hún gegndi herþjónustu árið 1945. Hún er þó ekki með bílpróf og þarf þess ekki. Kóngafólk er nefnilega undanþegið ýmsum lögum og samfélagsskyldum.

Sjá einnig: Enginn afsláttur fyrir prinsinn

Í yfirlýsingu á vefsíðu hennar hátignar kemur fram að jafnvel þó ekki sé hægt að sækja drottninguna til saka þá leggi hún sig fram við að fara að lögum í hvívetna.

Lögreglan í Norfolk þurfti að hafa afskipti af Philip prins, sem er 97 ára gamall, í gær, aðeins tveimur dögum eftir slysið. Þá náðist af honum mynd þar sem hann sat beltislaus undir stýri. Hann mun hafa fengið vinsamleg tilmæli. Í árekstrinum valt jeppi hans á hliðina. Hann slapp ómeiddur en í hinum bílnum úlnliðsbrotnaði kona.