Ríkis­endur­skoðun hefur sent fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytinu, Banka­sýslu ríkisins og stjórn hennar drög að Ís­lands­banka­skýrslunni, skýrslu ríkis­endur­skoðanda um söluna á hlut ríkisins í Ís­lands­banka. Um­sagnar­ferli að drögunum er þar með hafið en um­sagnar­frestur er veittur til og með 19. októ­ber.

Í til­kynningu á heima­síðu Ríkis­endur­skoðunar er á­réttað að trúnaður gildi um um­sagnar­drög skýrslunnar. „Um skýrslu­drögin verður því ekki fjallað efnis­lega í um­sagnar­ferlinu, hvorki af hálfu Ríkis­endur­skoðunar né um­sagnar­aðila.“

Í við­tali við Frétta­blaðið, fyrr í vikunni, sagði Guð­mundur Björg­vin Helga­son, ríkis­endur­skoðandi, að hann væri von­góður um að skýrslunni yrði skilað til Al­þingis í lok næstu viku. Skýrslan verður svo gerð opin­ber fyrir al­menning, en skilum á henni hefur í­trekað verið frestað.

Skýrslan átti fyrst um sinn að vera til­­búin í júní, henni var síðan frestað til júlí, síðan ágúst og í septem­ber sagði ríkis­endur­­skoðandi að búast mætti við að skýrslunni yrði skilað fyrir lok septem­ber, enda væri skýrslan á loka­­metrum. Í lok septem­ber frestaðist hún síðan enn og aftur.

Tals­vert hefur verið deilt um fram­kvæmd sölunnar á hlut ríkisins í Ís­lands­banka. Þá hefur sætt gagn­rýni að starfs­fólk og hlut­hafar hjá fjár­mála­stofnunum sem sáu um sölu bankans hafi sjálft fengið að kaupa hlut í bankanum.

Með­limir stjórnar­and­stöðunnar vildu fá sér­staka rann­sóknar­nefnd á vegum Al­þingis til að leggja mat á söluna en við því var ekki orðið.