Verkefnisstjórn sem unnið hefur að mótun flugstefnu fyrir Ísland hefur skilað Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, drög­um að grænbók um stefnuna. Grænbókin hefur nú verið lögð fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Í drögunum eru settar fram tillögur að áherslum í flugmálum til framtíðar á 21 sviði málaflokksins. Þar er meðal annars lagt til að framtíðaruppbygging fyrir alþjóðaflugvöll á næstu árum verði í Keflavík nema önnur staðsetning verði talin hagkvæmari varðandi öryggi, fjárhag eða önnur atriði.

Þá er lagt til að innanlandsflug verði skilgreint sem hluti af grunninnviðum og gjaldtakan verði í samræmi við aðra samgöngumáta. Miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur sé tilbúinn. Áfram verði haldið að greina aðra valkosti en Vatnsmýrina en jafnframt tryggt að starfsemin þar fái tækifæri til uppbyggingar á meðan aðrar lausnir séu ekki fyrir hendi.

Í tillögum er varða loftslags- og umhverfismál segir að leggja eigi áherslu á að íslenskur flugiðnaður verði í fararbroddi í orkuskiptum í flugi. Ísland verði fyrsta landið þar sem meirihluti flugvéla í almanna- og kennsluflugi verði rafrænn eða tvinn.