Landssamband veiðifélaga gerir alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til breytinga  á fiskeldislögum. 

Í tilkynningu segir að frumvarpsdrögin séu „veruleg tilslökun fiskeldinu til handa frá því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram síðastliðið vor og í engu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um vernd lífríkisins.“

Í tilkynningu frá landssambandinu kemur fram að drögin séu gjörbreytt frá því frumvarpi sem upprunalega var lagt fram á vorþingi árið 2018 og sé þannig brot á því samkomulagi sem náðist í starfshópi ráðherra um stefnumörkun í fiskeldi.

Þar segir að með nýju ákvæði í frumvarpinu um „svokallaðan samráðsvettvang eru leikmenn að meirihluta settir þar til höfuðs vísindamönnum  Hafrannsóknarstofnunar og skal vettvangurinn leggja mat á vísindastörf þeirra með álitsgerð á áhættumati erfðablöndunar.“

Þá segir sambandið ráðherra hafa verið gefið vald til að hafa vísindalegar niðurstöður að engu sýnist honum svo og að þessi ákvæði brjóti gegn ákvæðum náttúruverndarlaga um meðferð stjórnvalda á vísindalegum niðurstöðum.

Árás á vísindamenn Hafrannsóknarstofnunnar

Landssambandið mótmælir þessum hugmyndum harðlega í umsögn um frumvarpið og segir þau vera árás á vísindamenn Hafrannsóknarstofnunnar.

Í tilkynningu frá sambandinu segir enn fremur að í greinargerð sem fylgi frumvarpinu sé því ranglega haldið fram að meginefni þess byggi á tillögum fyrrnefnds starfshóps. Það sé rangt því í nýju frumvarpi sé öllu kollvarpað sem var samþykkt í hópnum.

Landssambandið telur að frumvarpið hafi verið unnið í einhliða samráði við „fiskeldismenn“ og gagnrýna að lítið samráð hafi verið haft við aðra. Í umsögn landssambandsins segir að í frumvarpinu sé farið gegn markmiðsákvæðum fiskeldislaga um verndun villtra laxastofn og stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar en þar segir að stefna beri að „ábyrgu fiskeldi, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna“.

Þá gagnrýnir Landssambandið að ákvæði um að áhættumatið skuli endurskoðað strax því lítil reynsla sé fengin á þeim stutta tíma frá því að það var samþykkt.

Að lokum segir í tilkynningu að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé verið að efna til  „stórfelldra átaka  stjórnvalda og löggjafans við þá sem gæta hagsmuna veiðiréttareigenda að lögum.“ 

Stríðsyfirlýsing á þá sem vernda vilja lífríkið

Áður hafa samtökin Icelandic Wild­li­fe Fund (IWF) gagnrýnt frumvarpið og segja frumvarpið vera stríðs­yfir­lýsingu á hendur þeim sem vernda vilja líf­ríkið. 

Sjá einnig: Segja frum­varps­drög ráð­herra stríðs­yfir­lýsingu