Dregið hefur úr áfengisneyslu og reykingum meðal landsmanna í heimsfaraldrinum. Þetta kemur fram í skýrslu tveggja stýrihópa sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði á síðasta ári til að skoða áhrif faraldursins á geð- og lýðheilsu landsmanna.

Færri segjast glíma við fjárhagsörðugleika og litlu færri segjast upplifa meiri einmanaleika en áður en faraldurinn hófst. Líkamlegri heilsu landsmanna hefur þó hrakað og dregið hefur úr grænmetisneyslu.

Fram kemur í skýrslunni að faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á líðan ungs fólks á framhaldsskólaaldri en þó minni áhrif á líðan barna. Þá hafi Barnaverndarnefnd borist 16 prósentum fleiri tilkynningar síðasta árið og bráðakomur til Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) aukist um 34 prósent. Á legudeild BUGL jukust innlagnir í janúar og febrúar á þessu ári um 49 prósent milli ára.

Tvöfalt fleiri ungmenni greindu frá því að hafa upplifað einmanaleika síðustu vikuna en gerðu það árið áður.

Í skýrslunni kemur fram að erfiðara aðgengi að geðheilbrigðisstofnunum geti hafað ýtt undir vandann og er lögð fram tillaga til að efla rafrænar lausnir í þeim málum.