Eina eftirlifandi barn myndhöggvarans Ríkarðs Jónssonar, Ásdís Ríkarðsdóttir, hefur dregið til baka gjöf sína til Ríkarðshúss, safns um verk föður hennar á Djúpavogi. Um er að ræða fjárgjöf í formi arfs en munina gaf fjölskyldan til safnsins áður.

„Það sem stendur til núna er að funda með hlutaðeigandi og fá skýrari mynd af um hvað þetta snýst,“ segir Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og formaður stjórnar Ríkarðshúss. Engar skýringar fylgdu afturkölluninni frá lögmanni Ásdísar, en hún er 99 ára að aldri. Mun verða fundað í þessari viku um málið.

Ríkarður, fæddur árið 1888, var sá fyrsti til að nema útskurðarlist hér á Íslandi og mörg verk hans þykja merkileg. Til dæmis fyrsta landvættaskjaldarmerki Íslands, fundarhamar Sameinuðu þjóðanna og stytta af fálka sem Djúpavogshreppur keypti á uppboði í London árið 2018. Ríkarður var alinn upp í Hamarsfirði en bjó lengst af í Reykjavík og hafði vinnustofu að Grundarstíg þar til hann lést árið 1977.

Ásdís og tvíburasystir hennar Ólöf stefndu að því að koma á fót safni fyrir verkin og ánöfnuðu eignir til þess eftir sinn dag. Eignirnar eru að mestu fólgnar í einbýlishúsi í Reykjavík sem þær bjuggu saman í, en það hefur fasteignamat upp á 82 milljónir króna í dag. Ólöf lést árið 2017 og dró sinn hluta gjafarinnar ekki til baka. Er þetta því flækja sem leysa þarf úr.

Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Helsta vandamál Ríkarðshúss hefur verið að koma upp ákjósanlegu húsnæði fyrir starfsemina. Upphaflega hugmyndin var að byggja nýtt hús utan um safnið en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins myndi slík framkvæmd kosta hátt í einn milljarð króna. Gengur gjöf systranna því skammt upp í það.

Í safnkosti Ríkarðshúss, sem skráður hefur verið í Sarp, eru 830 gripir af ýmsum toga. Til dæmis útskurðir í tré og gifsi, brjóstmyndir, askar, styttur, húsgögn, ljósmyndir, verkfæri og vinnuföt listamannsins. „Í fyrrasumar skráðum við alla munina og nú er unnið að því að koma þeim í ásættanlega geymslu,“ segir Gauti.

Unnið sé að því að finna framtíðarlausn á húsnæðisvanda safnsins, en það hefur verið í Löngubúð, verslunarhúsi sem byggt var árið 1850. Aðeins lítill hluti getur verið til sýnis í húsinu og stærstur hluti er geymdur við óviðunandi aðstæður, á háalofti Löngubúðar, en þar getur verið frost á veturna.