Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til um ellefu í gærkvöldi vegna hóps manna sem greindi á í austurbænum. Þegar leið á deilurnar dró einn í hópnum fram hníf. Lögregla lagði hald á hnífinn og einn aðili bíður nú ákvörðunar ákærusviðs um framhald málsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, en almennt var nóttin frekar róleg hjá lögreglunni og aðeins 20 verkefni komu inn á borð hennar.

Um korter fyrir tvö í nótt var aðili handtekinn vegna gruns um líkamsárás í miðborginni. Aðilinn var undir talverðum áhrifum fíkniefna og gisti fangageymslur. Hann verður yfirheyrður síðar í dag.

Tveir voru handteknir vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum. Annar var ekki með ökuskírteini sitt meðferðis þegar afskipti voru höfð af honum og hinn hafði verið sviptur ökuréttindum.