Drífa Snædal, forseti ASÍ, stendur við sín orð. Það kemur fram í samtali hennar við Fréttablaðið í kjölfar þess að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hélt því fram að yfirlýsingar hennar um hópuppsagnir félagsins væru órökstuddar.

Í gærkvöld var greint frá því að Sólveig ásamt svokölluðum baráttulista sínum, sem hefur meirihluta í stjórn Eflingar, hefði samþykkt að segja upp öllu starfsfólki félagsins. Drífa tjáði sig um málið við blaðamenn í morgun og sagðist fordæma ákvörðun stjórnarinnar.

„Ég hélt ekki að ég ætti eftir að lifa þann dag í verkalýðshreyfingunni að formaður verkalýðsfélags myndi standa að tilefnislausum hópuppsögnum. Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir í áratugi að gerist ekki. Þarna er verið að vega að afkomu og atvinnuöryggi fólks og við hljótum að fordæma það.“ sagði Drífa.

Í kjölfarið sendi Sólveig Anna frá sér yfirlýsingu þar sem því var haldið fram að ummæli Drífu væru órökstudd, sorgleg, og að hún hefði ekki haft fyrir því að leita upplýsinga um málið.

Fréttablaðið leitaði eftir viðbrögðum Drífu við yfirlýsingu Sólveigar, og hún sagðist „að sjálfsögðu“ standa við sín orð. Hún vildi þó ekki tjá sig frekar um orð Sólveigar að svo stöddu og vísaði til fyrri ummæla sinna.