Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, svarar fjár­mála­ráð­herra í nýjasta föstu­dags­pistli sínum og segir víst nóg til en Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sagði í við­tali fyrr í vikunni að það væri það ekki.

„Áður en ráða­menn og fyrir­tækja­eig­endur þessa lands fara að gagn­rýna slag­orð verka­lýðs­hreyfingarinnar „það er nóg til” legg ég til þessi við­brögð í staðinn: Að inn­leiða skyldu á fyrir­tæki um að greina frá launa­bili innan fyrir­tækja og setja sér stefnu um á­sættan­legt launa­bil. Enn fremur að lækka ofur­laun og taka á bónusum og ofur­arð­greiðslum. Að sama skapi þarf fjár­mála­ráð­herra að svara því af hverju verið er að lækka gjöld á þá sem eru af­lögu­færir (fjár­magns­tekju­skatt, hluta­bréfa­kaup­endur, at­vinnu­rek­endur í gegnum tryggingar­gjald hvort sem þeir þurfa að­stoð eða ekki o.s.frv.) á meðan ríkis­sjóður er rekinn með tapi,“ segir Drífa í pistli sínum.

Hún segir að það sé svo annar kapítuli út af fyrir sig að veikja skatt­rann­sóknir þegar skattaundan­skot eru metin af fjár­mála­ráðu­neytinu á 3 til 7 prósent af lands­fram­leiðslu. Drífa segir að með því að vinda ofan af markaðs­væðingu hús­næðis­markaðarins væru einnig hægt að gefa fólki mögu­leika á að upp­lifa öryggi í lífi sínu óháð tekjum sínum.

„Krafan um mann­sæmandi laun er krafan um öryggi, sann­girni og lífs­gæði. Til hvers eru ráða­menn ef ekki til að skilja þetta grund­vallar­at­riði í lífi al­mennings? Ef ráða­menn og at­vinnu­rek­endur vilja fleiri góð ráð er af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há,“ segir Drífa í pistli sínum.