Drífa Snædal hefur verið ráðin talskona Stígamóta og tekur við starfinu þann 1. mars af Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur sem hverfur til annarra starfa.
„Ég hlakka mikið til að starfa með og fyrir Stígamót en þau samtök hafa haft afgerandi áhrif á samfélagsumræðuna síðustu áratugi og veitt þúsundum brotaþola aðstoð vegna afleiðinga ofbeldis. Stígamót eru hreyfiafl sem eiga fáa sinn líka og ég er tilbúin til að demba mér í baráttuna með því góða fólki sem kemur að starfinu” segir Drífa í tilkynningu frá samtökunum.
Drífa sagði á síðasta ári af sér sem forseti ASÍ en mikil átök hafa einkennt stéttarfélögin og stéttabaráttuna undanfarið. Við það tilefni vísaði Drífa til „óbærilegra átaka“, til kjaraviðræðna og samskipta við kjörinna fulltrúa.
Fjölbreytt reynsla
Í tilkynningu frá Stígamótum kemur fram að Drífa hafi fjölbreytta reynslu en hún stýrði til að mynda Samtökum um kvennaathvarf um tíma.
„Hún hefur beitt sér í jafnréttismálum, gegn mansali og kynbundinni- og kynferðislegri áreitni,“ segir í tilkynningu Stígamóta.
Í starfi talskonu Stígamóta felst að taka þátt í stefnumótun og hafa umsjón með pólitísku starfi Stígamóta, miðla upplýsingum til fjölmiðla, fjármál, fjáröflun, samráð við stjórnvöld og þátttaka í fræðslu- og forvarnarverkefnum.
Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir fyrrverandi talskona tilkynnti í síðasta mánuði að hún ætlaði sér að hætta. Hún hefur brátt störf hjá samskiptafélaginu Aton JL.
