„Ef það er eitt­hvað sem er hlut­verk stjórn­valda á þessu landi þá er það að tryggja kjör al­mennings.“ Þetta segir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ í Frétta­vakt kvöldsins á Hring­braut. Hún vill sjá að­gerðir frá stjórn­völdum áður en að næstu kjara­við­ræðum kemur.

Fréttavaktin er á dagskrá á Hringbraut alla virka daga kl. 18.30.

Að­spurð gefur Drífa lítið út fyrir það hvort hún telji for­sendur kjara­samninga brostnar: „Við erum enn með kaup­mátt, en við erum enn að ná í skottið á því sem við sömdum um þannig að kaup­mátturinn er að skila sér til fólks. Að ein­hverju leyti eru hækkanirnar núna ekki búnar að ná í skottið á lækkununum sem urðu, þannig að þetta er ekki alveg ein­falt mál ef við horfum á allt samnings­tíma­bilið, segir Drífa og bætir við: „Hins vegar er það alveg ljóst að ef fram fer sem horfir þá verður kaup­mátturinn sem við sömdum um upp­urinn.“

Yfirlýsingar stjórnvalda frá 2019 ekki gengið eftir

Drífa reiknar með hörku á vinnu­markaði á næstu mánuðum: „Ég reikna með að það verði þungar kröfur um raun­veru­legan kaup­mátt, að sjálf­sögðu. Við erum ekki enn þá komin á þann stað að fólk geti lifað mjög eðli­legu lífi á lág­marks­laununum,“ segir Drífa.

Hún bætir við: „Það voru rosa­legar yfir­lýsingar stjórn­valda í tengslum við kjara­samninga 2019. Þær hafa ekki gengið eftir. Margt sem varðar hús­næðis­málin hefur ekki gengið eftir það, þannig að það þýðir lítið fyrir stjórn­völd að lofa og lofa í næstu kjara­samningum af því að svikin eru tölu­verð,“ segir Drífa og vill að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til þess að vinda ofan af húsnæðisverði.

Hins vegar hafi verið staðið við nokkra veiga­mikla þætti: „Við komum á þriggja þrepa skatt­kerfi, lengingu fæðingar­or­lofs og hækkun barna­bóta. Það hefur ýmis­legt verið gert en tals­vert hefur ekki gengið eftir. Mér svíður til dæmis mjög að það eru ekki komin ný húsa­legulög sem eru með leigu­bremsu. Yfir­lýsingar um að taka á verð­tryggðu lánunum og svo fram­vegis,“ segir Drífa.

Stjórnvöld sýni stuðning við almenning í verki

Drífa vill að stjórn­völd taki af­stöðu með al­menningi: „Stjórn­völd verða að sýna það í verki áður en kemur að kjara­við­ræðum að stjórn­völd ætli að leggjast á árarnar með okkur til þess að bæta kjör al­mennings. Og ég meina ef það er eitt­hvað sem er hlut­verk stjórn­valda á þessu landi þá er það að tryggja kjör al­mennings. Ég geri þá skýlausu kröfu að þessi ríkis­stjórn sem núna virðist vera í burðar­liðnum og er nú bara sama ríkis­stjórn og var áður, að hún fari nú að vinna úr öllu þessu sem var á borðinu.“

Hrá­vöru­skortur víða um heim ýtir undir verð­hækkanir, verð­bólgan eykst á Ís­landi og hús­næðis­skortur er mikill. Drífu líst ekki vel á á­standið: „Við erum í rauninni í sömu stöðu og flest önnur lönd. Flest lönd bregðast við Co­vid-kreppunni með því að lækka vexti og síðan núna er vaxta­hækkun um allan hinn vest­ræna heim, nokkurn veginn, auk þess sem allir eru farnir að glíma við verð­bólgu sem kemur af þessum vöru­skorti, að ein­hverju leyti,“ segir Drífa.

Hún segir fólk hafa breytt neyslu­mynstrum sínum en ASÍ ein­blíni helst á þrjú at­riði: „Við horfum bara á það sem skiptir venju­legt fólk máli: mat­vöru­verð, bensín og hús­næði, það er allt að hækka. Það eru svo­lítið mis­munandi kraftar þar að verki,“ segir Drífa.

Þá gerir Drífa kröfu á að fyrir­tæki sem hafa komið vel út úr Co­vid-á­standinu haldi aftur af verð­hækkunum og skili þeim ekki út í verð­lagið. Einnig gerir hún sömu­leiðis kröfu á Seðla­bankann að halda aftur af vaxta­hækkunum.