Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir engan undra að flugvellir í eigu alþjóðlegra stórfyrirtækja eigi erfitt með að fá fólk til sín, enda reyna þeir eftir fremsta megni að lækka laun og starfsmannakostnaði. Þetta kemur fram í vikulegum pistli Drífu Snædal sem birtist í dag.
Drífa segir ferðaþyrst fólk flykkjast til og frá landinu eftir tveggja ára ferðatakmarkanir. „Flugvellir víða um heim standa ekki undir álaginu og aldrei að vita hvar farangur endar eða í versta falli ferðamenn,“ segir hún.
Á mörgum flugvöllum víða um heim hefur neyðarástand skapast vegna manneklu, þá er álagið á vinnandi fólk mikið. Drífa segist ekki furða sig á því að það vanti starfsfólk enda reyni flugvellir sem eru í eigu alþjóðlegra fyrirtækja að keyra niður launa- og starfsmannakostnað.
„Flugvellirnir eru oft langt frá heimilum, starfsumhverfið er ómanneskjulegt og hækkandi samgöngukostnaður, barnagæsla og fleira gerir það að verkum að fólk greiðir nánast með sér til vinnu,“ segir Drífa.
Þá bætir hún við að fyrirtæki sem ekki stóðu með starfsfólkinu í Covid faraldrinum eigi sérstaklega erfitt með að fá fólk til sín. „Þetta er staðreynd úti í heimi og þetta er líka staðreynd á Íslandi,“ segir hún.
Drífa segir að einnig sé hægt að heimfæra þetta á heilu samfélögin. „Þau sem bjuggu við sterkt opinbert kerfi og beittu almannatryggingum í faraldrinum koma betur út en samfélög þar sem fólk féll niður í örbirgð og vonleysi án afkomu,“ segir hún.
Drífa segir verðbólguna þrengja að stöðu vinnandi fólks, þá sæki fólk í stuðning til stéttarfélaga og beitir samtakamætti til að knýja fram betri kjör í óviðunandi ástandi.
„Þau ríki sem geta beitt skattkerfum til jöfnunar, búa við sterka verkalýðshreyfingu og sterkt opinbert kerfi hafa möguleika til að bæta kjör almennings og styrkja með þeim hætti atvinnulífið. Við erum þar á meðal,“ segir Drífa.