„Mis­jafnt hafast fyrir­tækin að þessa dagana og mis­jöfn er staða þeirra. Brim á­kveður að greiða út 1800 milljónir í arð á sama tíma og Nettó veitir starfs­fólki sínu kaup­auka.“

Þetta segir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, í pistli á vef sam­bandsins.

Drífa bendir á að verslunar­fólk – eins og svo margir aðrir – séu undir miklu á­lagi vegna Co­vid-19 far­aldursins og það reynist mörgum erfitt að mæta í vinnu vegna sýkingar­hættu.

Nærtækara en að huga að arðgreislum

„Brim er eitt þeirra fyrir­tækja sem er talið þjóð­hags­lega mikil­vægt og starfar þess vegna á undan­þágu frá sam­komu­banninu. Starfs­fólk þar leggur sig því í meiri hættu en aðrir þar sem fólk er að um­gangast fleiri í vinnunni en heil­brigðis­yfir­völd telja al­mennt skyn­sam­legt. Að virða það við starfs­fólk væri nær­tækara en huga að arð­greiðslum á þessum tímum,“ segir Drífa meðal annars.

Nokkrar deilur hafa verið í mið­stjórn ASÍ undan­farna daga eftir að sam­bandið hafnaði mála­leitan Sam­taka at­vinnu­lífsins um að leita leiða til að draga úr launa­kostnaði fyrir­tækja. Vil­hjálmur Birgis­son, 2. Vara­for­seti ASÍ, sagði sig úr stjórninni þar sem hann var ó­sáttur við að verka­lýðs­hreyfingin vildi ekki lækka mót­fram­lag í líf­eyris­sjóði at­vinnu­rek­enda úr 11,5% í 8%.

Drífa segir það með miklum ó­líkindum að þrýsta á um flatar lækkanir mót­fram­lags í líf­eyris­sjóð eða frystingu launa­hækkana fyrir allan vinnu­markaðinn.

„Sum fyrir­tæki þurfa vissu­lega stuðning á meðan önnur eru sannan­lega af­lögu­fær. Við þurfum nú að anda ró­lega og vera þess full­viss að þau úr­ræði sem þegar hefur verið gripið til nýtist fyrir­tækjum og launa­fólki með sann­gjörnum hætti,“ segir hún.

Stjórnvöld þurfa að bregðast við

Drífa nefnir svo að mið­stjórn ASÍ hafi á fundi sínum í dag sam­þykkt á­skorun til stjórn­valda um að tryggja af­komu við­kvæmra hópa sem nú­verandi úr­ræði vegna Co­vid-19 grípa ekki.

„Þetta er fólk sem þarf að fara í sótt­kví vegna undir­liggjandi sjúk­dóma, barns­hafandi konur og fólk sem verður tekju­laust vegna sam­komu­bannsins. ASÍ hefur áður vakið at­hygli stöðu þessara hópa. Nú þurfa stjórn­völd að bregðast hratt og örugg­lega við.“