„Þegar miðstjórn ASÍ hvetur til sniðgöngu á fyrirtæki er það ekki létt og lágstemmd yfirlýsing heldur er mikið í húfi og staðan mjög alvarleg. Hér er ekki aðeins um kjör starfsfólks Play að tefla. Hér er tekist á um grundvallaratriði á íslenskum vinnumarkaði og ef rangt er á haldið geta afleiðingarnar orðið afdrifaríkar fyrir allan almenning,“ segir í vikulegum pistli Drífu Snædal forseta Alþýðusambands Íslands.

Hnúturinn á milli félagsins og Alþýðusambandsins er því ekki að leysast heldur herðast svo um munar.

Ekki samið af vinnandi fólki

Drífa segir að samningur Play við Flugstéttafélagið hafi verið gerður áður en ráðningar félagsins hófust á flugmönnum og flugliðum, það hafi ekki hafið flug og því ekki með áhafnir á sínum snærum.

Samningur sé því ekki gerður af hópi vinnandi fólks í krafti samstöðu innan stéttarfélags við atvinnurekanda, eins og það er orðað. Drífa ítrekar að ekki sé ljóst hver undirritar samninginn eða samþykkir fyrir hönd vinnandi fólks.

Fyrr í dag barst löng yfirlýsing frá PLAY þar sem m.a. stóð að forysta ASÍ hafi ekki óskað útskýringa frá félaginu sjálfu áður en hvatt var til að sniðganga fyrirtækið og því farið fram með rangfærslur um laun flugliða. Þar stendur: „Eftir að PLAY kom með sínar útskýringar og birti upplýsingar úr kjarasamningi sínum þá hefur árás ASÍ breyst mikið og í mikilvægum atriðum því nú er áherslan á að laun hjá PLAY séu lægri en hjá Icelandair en ekki að þau séu lægri en lágmarkslaun í landinu eins og lagt var upp með fyrst og er rangt“. Enn fremur segir að launakjör Icelandair og Play séu ekki samaburðarhæf.

Ítreka grunnlaunatöluna

Drífa ítrekar fyrri meiningar ASÍ: „Íslenska flugstéttarfélagið og Play hafa ekki viljað láta kjarasamninga sína af hendi en ASÍ hefur þá undir höndum og staðfestir hér enn á ný að þar er kveðið á um að grunnlaun séu 266.500 krónur fyrir nýliða. Play mun halda áfram að þyrla upp ryki og dreifa öðrum upplýsingum á valda fjölmiðla og senda frá sér misvísandi yfirlýsingar,“.

ASÍ hefur gert samanburð á launum flugfélaganna sem það birtir á vefsíðu sinni og hér er skjáskot af. Þar kemur launamunur nýliða hjá flugfélögunum tveimur er þónokkur og mun lægri hjá PLAY.

Mynd/ASÍ

„Eina leiðin fyrir Play að sýna fram á að þar sé starfsfólki í flugi boðið upp á mannsæmandi laun er að leggja fram undirritaðan kjarasamning sem gerður er við raunverulegt stéttarfélag vinnandi fólks“, skrifar Drífa.