Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 26. september 2020
06.00 GMT

Magnús Geir hefur setið í stól Þjóðleikhússtjóra í tæpa níu mánuði og nú er loks komið að fyrstu frumsýningunni á Stóra sviðinu undir hans stjórn. Kardemommubærinn lifnar við nú um helgina og þegar við hittumst nokkrum dögum fyrir frumsýningu er spennan í húsinu nánast áþreifanleg.

Magnús Geir tók formlega við stöðu Þjóðleikhússtjóra þann 1. janúar síðastliðinn og undir lok febrúarmánaðar náði heimsfaraldur COVID-19 til landsins en vart þarf að tíunda hvaða áhrif veiran, og tilraunir til að hefta útbreiðslu hennar, hefur haft á samfélagið frá þeim degi.

Það er þó engan bilbug á leikhússtjóra að finna, enda maðurinn vanur að takast á við krefjandi áskoranir, en á síðustu tveimur vinnustöðum sínum, Borgarleikhúsinu og RÚV, mætti hann stórum verkefnum, þó heimsfaraldur hafi þá verið flestum fjarlæg hugsun.

Var leikhúsnördabarn


„Það er mikil stemmning í húsinu en miklar breytingar hafa verið gerðar bæði á innra starfinu og húsnæðinu, það hefur orðið umtalsverð endurnýjun í starfsmannahópnum og svo höfum við ekki fengið að sýna í sex mánuði. Við erum því gríðarlega hlaðin, klár og full tilhlökkunar. En auðvitað er þetta ástand flókið fyrir alla og við öll að leysa úr verkefnum sem við höfum ekki tekist á við áður. En við erum komin af stað og krossum fingur um að takmarkanir fari að minnka.“

Kardemommubærinn er lengi búinn að vera í vinnslu, en komið er ár frá því að börnin sem taka þátt voru valin í fjölmennum leikprufum. „Það eru því allir að springa af spenningi,“ segir Magnús Geir, sem viðurkennir að það hafi þurft að stækka einhverja búninga og einhverjir hafi verið vaxnir upp úr skónum sem valdir höfðu verið. „En þau eru alla vega ennþá börn,“ segir Magnús og hlær.

Börnin sem taka þátt í uppfærslunni eru 26 talsins og glæða húsið, eðli málsins samkvæmt, miklu lífi.

„Það er æðislegt að hafa börnin hér í húsinu en ég þekki það sjálfur að vera barn í leikhúsi, það er toppurinn á tilverunni,“ segir Magnús Geir, sem lék bæði í Tyrkja-Guddu og Ríkharði þriðja sem barn og segir leikhúsbakteríuna hafa komið snemma. „Í framhaldi tók ég þátt í ýmsum verkefnum og stofnaði svo barnaleikhús með vinum mínum. Ég var leikhúsnördabarn, með bakteríuna á háu stigi. Það sem ég er að gera í dag er ekki svo frábrugðið því sem ég var að gera þá, þó það sé kannski á svolítið öðrum skala.“

Lagði leikarahugmyndinni


Magnús segist upphaflega hafa ætlað sér að vera bæði leikari og leikstjóri en hafi lagt leikarahugmyndinni í menntaskóla. „Ég hafði mikla unun af því að leikstýra og stjórna og kannski hef ég fundið á mér að ég væri ekki nógu góður leikari.“

Magnús útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem hann var alla skólagönguna virkur í félagslífinu og síðasta árið var hann Inspector Scholae, eða formaður nemendafélagsins. Aðspurður hvort leiðtogahæfileikarnir hafi komið svo snemma í ljós, dregur Magnús aðeins í land: „Já, eða alla vega viljinn til að leiða.“

Aðspurður hvort hann hafi alltaf stefnt á að verða Þjóðleikhússtjóri, segir Magnús það ekki endilega hafa verið eiginlegt markmið. „Þetta er vissulega draumastarf en ég hef verið svo heppinn að ég hef alltaf verið í draumastarfi. Þegar ég tók við Borgarleikhúsinu á sínum tíma þá var það líka draumastarfið og það sama átti við þegar ég tók við Leikfélagi Akureyrar.“


„Þetta er vissulega draumastarf en ég hef verið svo heppinn að ég hef alltaf verið í draumastarfi."


Það leynir sér ekki að Þjóðleikhússtjóri er uppnuminn yfir vinnustað sínum; „Þjóðleikhúsið er dásamlegt leikhús; nándin milli sviðsins og salarins er einstök, fallegu rauðu tjöldin og þessi einstaka stemning sem við erum nú einmitt að reyna að lyfta og láta njóta sín.“

Erum ekkert að barma okkur


Talið berst að þeim samkomutakmörkunum sem verið hafa við lýði undanfarið og áhrif þeirra á starf nýráðins leikhússtjóra.

„Auðvitað erum við öll í þessu saman og við erum ekkert að barma okkur yfir því. Það eru margir í mikið erfiðari aðstöðu en við. En auðvitað riðlaði þetta aðeins planinu. Ég kom hingað inn um áramótin með stórar hugmyndir um hvað þyrfti að gera og okkur tókst á fyrstu mánuðunum að laða mjög sterkan hóp að húsinu og stokka aðeins upp skipulagið. En það var okkar gæfa að nálgast þetta sem verkefni og vera fókuseruð á að nýta tímann vel og vera algjörlega tilbúin í haust.“

Magnús segist finna fyrir mikilli eftirvæntingu meðal leikhúsgesta þó hann sé meðvitaður um að margir séu hikandi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Magnús segist finna fyrir mikilli eftirvæntingu meðal leikhúsgesta fyrir leikárinu fram undan, en hann sé þó meðvitaður um að margir séu hikandi og haldi að sér höndum í augnablikinu.

„Það eru ekki allir tilbúnir að fara í leikhús strax og við erum undir það búin að ástandið hafi mikil áhrif á í aðsókn í vetur. Nú, til að mynda, náum við aðeins að nýta 60 prósent sæta.“

Vaninn er að sjálfsaflatekjur leikhússins séu um þriðjungur rekstrarfjár ársins, en nú hefur orðið algjört tekjufall í þeim. „Við væntum því að vanda okkar og annarra menningarstofnana verði mætt. Ef ekki, væru auðvitað allar menningarstofnanir að fara að loka.“

Leggur áherslu á jafnréttismál


Þegar MeToo byltingin reis sem hæst hér á landi birtust fjölmargar sögur í lokuðum hópi sviðslistakvenna af meintu kynferðislegu áreiti, meðal annars í leikhúsunum. Skemmst er að minnast málaferla gegn Borgarleikhúsinu vegna uppsagnar starfsmanns á grundvelli slíkra ásakana. Ætli Magnús Geir sé með áætlun um það hvernig hann ætli sér að taka á slíku ef upp kemur í hans tíð?


„Ég er jafnréttissinni og hef lagt mikla áherslu á jafnréttismál í mínum störfum, bæði í leikhúsunum og í RÚV. Auðvitað á leikhúsið að vera kærleiksríkur vinnustaður og í því felst að tekið sé á málum sem tengjast einelti eða kynferðislegri áreitni. Hér er rekin stefna þar sem tekið er á slíkum málum ef upp koma.

Þá samkvæmt leikreglum þar sem upplýsingum er safnað og viðkomandi er gefið tækifæri á að koma með sína hlið málsins. En þetta eru gríðarlega flókin mál sem þarf að tækla af fagmennsku í samræmi við lög og reglur og um leið af virðingu og kærleik og af mennsku gagnvart öllum hlutaðeigandi.“


„En þetta eru gríðarlega flókin mál sem þarf að tækla af fagmennsku í samræmi við lög og reglur og um leið af virðingu og kærleik og af mennsku gagnvart öllum hlutaðeigandi.“


Nýverið kom fram gagnrýni um að leikarahópurinn sem birtist í kynningarefni leikhúsanna væri full einsleitur og segir Magnús Geir þá umræðu bæði gagnlega og þarfa.

„Þetta er gagnleg og mikilvæg umræða. Við hlustum og ég er sammála þessum ábendingum. Það eru Íslendingar af ólíkum uppruna á sviði leikhússins í vetur og hafa verið og verða, en við þurfum að gera betur.

Við eigum að taka svona umræðu fagnandi og nýta hana til að bæta leikhúsið og horfa fram á veginn. Mér finnst gott að fólk láti sig málið varða og ræði það. Ef maður væri ekki til í slík skoðanaskipti ætti maður ekki heima í þessu starfi eða öðrum slíkum.“


Hættulegt að festast og staðna


Ferill Magnúsar Geirs sem stjórnanda hefur verið farsæll en eftir að hafa stjórnað Leikfélagi Akureyrar var hann ráðinn í Borgarleikhúsið og tók í framhaldi af því við starfi Útvarpsstjóra, sem hann gegndi í fimm ár eða þar til hann réði sig til Þjóðleikhússins.

„Ég hef mikla trú á því að hlutirnir eigi að vera á hreyfingu og maður eigi ekki að festast og staðna. Það getur verið freistandi að halda sér á þeim stað sem maður er kominn á, halda í völdin eða stöðuna. En á sama tíma getur það verið hættulegt, hlutirnir eiga að vera á hreyfingu, sérstaklega menningarstofnanir.“


„Það getur verið freistandi að halda sér á þeim stað sem maður er kominn á, halda í völdin eða stöðuna."


Þegar leitað var til mín um að sækja um stöðu útvarpsstjóra kom það bæði mér og mörgum á óvart, enda var ég afskaplega sáttur í mínu starfi.

En þetta var spennandi áskorun enda hafði ég verið í leikhúsi alla mína ævi og það var margt nýtt, framandi og spennandi á vettvangi RÚV. Ég er stoltur af þeim breytingum sem við gerðum í RÚV á þeim tíma sem ég var þar. RÚV varð opnara, dagskrármiðaðra, menningarþjónusta var efld sem og þjónusta við börn og fjárhagsstaða félagsins batnaði mikið.“

Eftir um sex ár í starfi útvarpsstjóra segist Magnúsi hafa liðið svipað og þegar hann var í Borgarleikhúsinu. „Við höfðum innleitt flestar þær breytingar sem við höfðum lagt upp með. Ég hefði getað verið eitthvað áfram en það var alveg kominn tími til að söðla um.“

Langaði aftur í leikhúsið

Þá opnaðist staða Þjóðleikhússtjóra. „Ég vissi alltaf að þó mér liði vel á RÚV þá væri það bara tímabundið verkefni og mig langaði alltaf að fara aftur í leikhúsið, ef það byðist. Ég gat ekki hugsað mér að eiga ekki afturkvæmt í leikhúsið.“


„Ég vissi alltaf að þó mér liði vel á RÚV þá væri það bara tímabundið verkefni og mig langaði alltaf að fara aftur í leikhúsið, ef það byðist."


Eins og fyrr segir veigrar Magnús Geir sér ekki við ögrandi verkefni og að gera breytingar ef þörf krefur. „Við breytum ekki breytinganna vegna en á hinn bóginn er mikilvægt að leikhús sé sífellt að endurnýja sig. Við viljum að Þjóðleikhúsið sé alltaf nýtt – þó það byggi á einstaklega traustum grunni. Við erum að lofta út og erum óhrædd við að taka áhættu.“


Heppinn að eignast fjölskyldu


Magnús Geir segir vinnudagana hafa verið langa þegar hann var einhleypur og barnlaus. „Ég var þá bara í leikhúsinu, en ég var einhleypur mestan part þess tíma sem ég var í Borgarleikhúsinu.

En svo var ég svo heppinn að ég eignaðist fjölskyldu og hún er mjög stór. Eftir það hef ég alltaf passað að setja mér skýrar skorður með það hvernig ég vinn og reyni að hafa eftirmiðdagana og helgarnar lausar fyrir fjölskylduna."

Magnús segist setja sér skýrar skorður með það hvernig hann vinnur og reyni að hafa eftirmiðdagana og helgarnar lausar fyrir fjölskylduna. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ég geng vasklega til verks og fer ekki mikið í langa hádegisverði eða kaffispjall. Ég keyri svolítið á hlutina en auðvitað er þetta innri togstreita eins og hjá öllum sem eru í krefjandi starfi og með fjölskyldu. Þegar manni finnst maður oft ekki vera að standa sig nægilega vel á báðum stöðum.

Svo fylgir vinnan manni mismikið heim og þó maður sé ekki endilega í tölvunni eða símanum, þá þarf maður líka að passa hvar maður er staddur í huganum. Ég vil vera heill heima, þegar ég er með fjölskyldunni og svo heill í leikhúsinu þegar ég er þar. Ég er bara að vega salt með þetta eins og ótrúlega margir. Það er krefjandi lúxus.“


Draumurinn að finna ástina


Magnús var að nálgast fertugt þegar hann og eiginkona hans, Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, náðu saman, en hún var þá þriggja barna móðir. „Ég var háaldraður,“ segir hann og hlær.

„Líf mitt hafði einfaldlega snúist um leikhúsið fram að því, en draumurinn var alltaf að ég myndi finna ástina, eignast konu og fjölskyldu.

Ég hefði alveg verið til í það fyrr, það var ekki ákvörðun að bíða svona lengi. Í hjarta mínu langaði mig alltaf í fjölskyldu svo það var enginn stoppari hjá mér, ég var bara að bíða eftir að hitta hina einu réttu og geta hafist handa,“ segir hann í léttum tón.


„Í hjarta mínu langaði mig alltaf í fjölskyldu svo það var enginn stoppari hjá mér, ég var bara að bíða eftir að hitta hina einu réttu og geta hafist handa,“


Það má ímynda sér að það hafi verið viðbrigði fyrir tæplega fertugan mann sem hafði einbeitt sér að starfsferlinum að vera skyndilega kominn með fjölskyldu. „Auðvitað var ýmislegt flókið í því, en fyrst og fremst gekk þetta ótrúlega vel og kannski aðallega því stóru krakkarnir, Arna, Andrea og Stefán eru svo frábær.“

Ég óttaðist ekki að fara inn í svo stóra fjölskyldu en var alltaf meðvitaður um að þetta yrði verkefni og ég kunni það ekkert. En lagði mig fram um að læra það hratt og gera mitt besta. Oftast tókst það mjög vel en stundum þurfti maður að gera betur.“

Átján mánuðir á milli barna

Mjög fljótt bættist Árni Gunnar sonur þeirra Magnúsar og Ingibjargar í hópinn, en hann segir þau hjón alltaf hafa verið sammála um það frá fyrsta degi að eignast saman barn. Átján mánuðum síðar kom svo Dagur Ari í heiminn.

„Þeir hafa því næstum alist upp sem tvíburar. Þeir eru núna sex og sjö ára, svaka hressir og ótrúlega skemmtilegir – alveg dásamlegir,“ segir Magnús og viðurkennir að álagið hafi verið töluvert þegar þeir voru yngri.

Synirnir Árni Gunnar og Dagur Ari komu í heiminn með 18 mánaða millibili og hafa því að sögn Magnúsar nánast alist upp sem tvíburar. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„En þeir eru þó komnir yfir tímabilið þar sem þeir eru alltaf í stöðugri lífshættu. Þeir eru miklir fótboltastrákar og það gengur yfirleitt mikið á. Svo gleður það mig auðvitað þegar ég upplifi þá dolfallna í leikhúsinu. Okkur fannst alveg lógískt að eignast tvö börn með skömmu millibili. Við erum mjög þakklát fyrir það í dag, þó að á stundum höfum við horft á hvort annað og spurt: „Var þetta mjög góð hugmynd?““ segir hann og hlær.

Vanmáttugur á fótboltaleikjum


Þegar Magnús var ráðinn útvarpsstjóri var eldri sonurinn eins árs og viku eftir ráðninguna áttuðu þau sig á því að von væri á öðru barni. „Það var auðvitað mikið stuð á heimilinu en Ingibjörg konan mín er alveg mögnuð og bjó að því að hafa gert þetta áður. Við reynum almennt að gera hlutina saman. Ég reyni að standa mig á fótboltaleikjunum en er svolítið vanmáttugur þar.

Ég mæti og hvet synina en ég var aldrei fótboltastrákur. Bara nú um síðustu helgi kvartaði annar yfir því við mig að aðrir pabbar væru alltaf með á hreinu hvenær Liverpool væri að spila en ekki ég. Sem er bara alveg rétt hjá honum. En hann er búinn að hlaða niður appi í símanum mínum svo nú fæ ég áminningu ef leikur er fram undan.“

„Ég eignaðist börn svo seint og er óendanlega þakklátur fyrir það, en fyrir vikið sé ég ekki sólina fyrir þeim og er því stundum ekki alveg nógu ákveðinn. Ég á ekki auðvelt með að setja þeim stólinn fyrir dyrnar.“


Finnur ró í eldamennskunni

Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir á fallegu heimili í vesturbænum og viðurkennir Magnús að þar sé oftast líf og fjör enda sex manns í heimili, en elsta dóttirin hefur stofnað eigið heimili og barnabarn hefur bæst í hópinn. „Ömmu- og afastelpan hún Lovísa er oft hjá okkur og með þeim strákunum og þá er allt á hvolfi,“ segir hann og brosir.


„Ég eignaðist börn svo seint og er óendanlega þakklátur fyrir það, en fyrir vikið sé ég ekki sólina fyrir þeim og er því stundum ekki alveg nógu ákveðinn."


Aðspurður um verkaskiptinguna segist Magnús Geir yfirleitt sjá um eldamennskuna. „Ég hef mjög gaman af því að elda og finn einhverja ró í því. Ég elda margt en er lítið fyrir venjulegan, íslenskan heimilismat eins og grjónagraut og slátur. Hann er eldaður þegar ég er í burtu. Inga sér hins vegar um eiginlega allt annað – hún er besti stjórinn á okkar heimili."

Magnús Geir er kominn þangað sem hann vill vera en framtíðin er sem fyrr óskrifað blað. „Ég nýt þess að mæta í vinnuna hvern dag, finnst geggjað að vera í miðbænum og ganga upp að þessari mögnuðu byggingu dag hvern og vita af skemmtilega fólkinu og verkefnunum sem bíða. Ég er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu ævintýri og hlakka til framtíðarinnar.“

Fyrsti Þjóðleikhússtjórinn, Guðlaugur Rósinkranz sat við stjórnvölinn í rúm 20 ár, en Magnús Geir ætlar ekki að vera svo lengi. „En vonandi nógu lengi til að klára það sem þarf að klára.“‘

Athugasemdir