Undanfarin þrjú ár hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gegnt embætti forstjóra ODHIR, Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, einu áhrifamesta embætti sem Íslendingur hefur gegnt á alþjóðlegum vettvangi.

Skipunartími Ingibjargar rennur út í sumar, en fyrir liggur tillaga frá ÖSE um að samningur hennar verði framlengdur um þrjú ár til viðbótar. Að óbreyttu hugnast Ingibjörgu sú ráðstöfun vel, en hún segist kunna afar vel við starfið og líf sitt í Varsjá í Póllandi, þar sem skrifstofa stofnunarinnar er staðsett.

„Þetta er mjög fjölbreytt starf sem kemur inn á mörg málefni sem ég hef haft mikinn áhuga á alla tíð,“ segir Ingibjörg.

Kortleggja neyðarlög

Í vikunni hélt Ingibjörg erindi á fundi IcelandSif, samtaka um sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar. Þó að verkefni Ingibjargar séu frekar á sviði stjórnvalda en einkafyrirtækja, þá getur einkageirinn þrýst á að mannréttindi séu virt í hvívetna, með ábyrgum fjárfestingum. Hún fagnar því aukinni áherslu á slíkar fjárfestingar.

Á fundinum veitti Ingibjörg áhugaverða innsýn í verkefni ODHIR á tímum kórónaveirufaraldursins, sem hafa verið ærin.

Ástæðan er ekki síst sú að aðildarríki ÖSE skuldbundu sig árið 1991 til að tilkynna stofnuninni þegar neyðarástandi væri lýst yfir í löndunum. Það hefur stór hluti aðildarríkjanna gert á þessum viðsjárverðu tímum og því hefur mætt mikið á eftirlitshlutverki ODHIR.

„Þegar lönd lýsa yfir neyðarástandi, þá verða þau að sýna fram á brýna nauðsyn þess. Slíkt ástand á alltaf að vera tímabundið og mikilvægt er að staðan sé í stöðugri endurskoðun. Þá verður úrræðið að vera í hlutfalli við vandann og aðstæður á hverjum stað,“ segir Ingibjörg.

Stofnunin vinnur nú að því að kortleggja hvernig staðið var að innleiðingu neyðaraðgerða í aðildarríkjunum.

„Við erum að kortleggja hvað var gert vel og hvar pottur var brotinn. Við munum gefa út skýrslu og koma með tillögur til aðildarríkja um hvernig er best að standa að innleiðingu slíkra aðgerða, því aðstæður sem þessar geta alveg komið upp aftur,“ segir Ingibjörg.

Afar mikilvægt sé að draga lærdóm af því hvernig til tókst.

Að sögn Ingibjargar er ekki hægt að segja að ný ófyrirséð vandamál varðandi lýðræði og mannréttindi hafi komið upp á yfirborðið heldur hafi faraldurinn varpað skýru ljósi á þá annmarka sem voru þegar á mörgum samfélögum.

„Sprungurnar sem voru fyrir stækkað,“ segir Ingibjörg.

Fordómar hafa aukist

Staða ríkja þar sem þingræði og þjóðþing höfðu ekki sterka stöðu hefur versnað enn frekar. Þá virðist sem svo að fordómar gegn minnihlutahópum hafi aukist. „Við sjáum það meðal annars gagnvart minnihlutahópum sem eiga undir högg að sækja, til dæmis flóttamönnum og Rómafólki.“

Alls eru um 10-12 milljónir Rómafólks dreifðar um ríki Evrópu og segir Ingibjörg að fordómar gegn þeim lýsi sér í því að réttindi þeirra hafi verið fótum troðin í sumum ríkjum á meðan faraldurinn geisaði.

„Eins og hjá öllum öðrum komu upp smit meðal þeirra. Við höfum séð dæmi þess að samfélögum þeirra hafi hreinlega verið lokað og afleiðingarnar af því eru mjög slæmar. Þar sem ástandið er verst hefur þetta fólk hvorki getað aflað sér lífsviðurværis með því að selja vörur sínar á markaði né fengið að kaupa sér nauðsynjar. Aðgengi þeirra að nettengingu og tölvum er í mörgum tilvikum ekki upp á marga fiska og þar með hafa úrræði eins og kennsla barna í gegnum netið ekki gagnast þeim.“ Til að setja hlutina í samhengi bendir Ingibjörg á að afmarkaður hópur skíðafólks hafi til að byrja með smitast hérlendis. „Það datt samt engum til hugar að loka Garðabæ, svo dæmi sé tekið.“

Hún segir afar mikilvægt að þjóðþing landa séu með í ráðum varðandi aðgerðir en það hafi ekki alls staðar verið virt. „Sums staðar hafa þjóðþingin beinlínis samþykkt að afsala sér völdum og eftirliti, eins og til dæmis í Ungverjalandi, þar sem þingið samþykkti að ríkisstjórnin gæti stjórnað með tilskipunum.“ Sú aðgerð er ótímabundin, sem er áhyggjuefni.

Þá hafi stjórnvöld ýmissa landa, til dæmis Armeníu, Georgíu og Póllands, samþykkt umdeild lög meðan þjóðfélagið er ekki í stakk búið til að fylgjast með og veita aðhald. „Við þessar aðstæður er mjög takmarkað samráð við stjórnarandstöðu og almannasamtök, sem hafa heldur ekki tök á að mótmæla vegna samkomubanns,“ segir Ingibjörg.

Ekki drepa mannréttindi líka

Hún segir að ljóst sé að neyðaraðgerðir hafi alltaf takmarkanir í för með sér varðandi frelsi og réttindi einstaklinga, en að mikilvægt sé að hafa varann á. „Það er mikilvægt að drepa vírusinn, en menn mega ekki drepa lýðræðið og mannréttindin í leiðinni. Skiljanlega gaf fólk afslátt af sínum réttindum á meðan faraldurinn gekk yfir, en tryggja verður að skerðingin sé tímabundin.“

Ákveðin freistni sé hjá stjórnvöldum til að takmarka réttindi þegna lengur en þörf er á. „Í sumum ríkjum er hentugt að koma í veg fyrir að fólk hópist saman og mótmæli. Þá getur skert starfsemi þjóðþingsins veitt ákveðið svigrúm, enda finnst mörgum nöldrið í þinginu fremur þreytandi,“ segir Ingibjörg og hlær við, þegar hún er spurð hvort hún þekki þá tilfinningu ekki vel.

Að mati Ingibjargar hefur ákveðið bakslag átt sér stað á sviði lýðræðis og mannréttinda undanfarin ár. „Almenningur gengur í sumum tilvikum að þessum réttindum sem sjálfgefnum og áttar sig ekki á því að það þurfti að berjast fyrir þeim. Það er mikilvægt að standa vörð um þessi réttindi, því um leið og farið er að gefa afslátt af þeim getur réttindabaráttan tekið nokkur skref til baka.“

Aldrei sé mikilvægara að standa vaktina en á krepputímum, eins og þeim sem nú fara í hönd. „Þá er hættara við því að stjórnvöld reyni að skerða réttindi þegna sinna. Þá er mikilvægt að hafa góða áttavita og ég tel að ODHIR sé slíkur áttaviti. Mikilvægi okkar eykst á slíkum stundum,“ segir Ingibjörg.

Staða mannréttinda á Íslandi er góð en ekkert ríki er fullkomið í þeim efnum. „Það sem mér finnst varhugavert hérna á Íslandi er að pólarísering hefur aukist og andrúmsloftið í stjórnmálunum er oft ansi eitrað. Neikvæð umræða um þjóðþingið getur leitt til þess að fólk telji þingið til óþurftar og það er mjög vond afstaða,“ segir Ingibjörg.

Þá sýni úrskurðir Mannréttindadómstóls Evrópu að margt megi betur fara í íslensku réttarkerfi. Ingibjörg segir að íslenska kunningjasamfélagið geti reynst mikil áskorun. „Við búum í litlu samfélagi og okkur hættir til að taka ákvarðanir út frá einstaklingnum og setja reglurnar aðeins til hliðar. Í sumum tilvikum getur þetta gengið upp en þetta er líka mjög hættulegt,“ segir Ingibjörg.