Óhugnanlegu myndbandi var nýlega dreift á kínverskum samfélagsmiðlum sem sýnir starfsmenn í sóttvarnargöllum taka hund af lífi úti á miðri götu. Atvikið átti sér stað í kínversku borginni Xining í vesturhluta landsins.

Í myndbandinu má sjá sjálfboðaliða sveifla hundi sem bundinn var um hálsinn í nokkra hringi áður en honum var skellt utan í vegg. Hundurinn var svo dreginn meðvitundarlaus eftir götunni. Myndbandið hefur vakið mikla reiði á meðal almennings í Kína. Fjölmenn mótmæli hafa farið fram í landinu síðustu daga í kjölfar eldsvoða sem varð tíu manns að bana í síðustu viku.

Margir gæludýraeigendur í Kína hafa deilt svipuðum sögum og ásaka heilbrigðisstarfsmenn um að drepa dýr þeirra eftir að þau eru send í einangrun. Öryggismyndavél sem kona í Peking hafði komið upp á heimili sínu sýndi þegar heilbrigðisstarfsmenn brutust inn í íbúðina hennar og börðu Corgi-hundinn hennar til dauða með járnrörum. Í ljós kom að konan var ekki með Covid.

Starfsmenn í hvítum sóttvarnargöllum hafa verið áberandi í Kína seinustu mánuði í gegnum hina svokölluðu „núllstefnu“ kínverskra stjórnvalda. Xi Jinping forseti hefur lagt mikla áherslu á að útrýma Covid-19 í landinu og hafa þessir starfsmenn fengið það verkefni að framfylgja þeirri áætlun.

Stór hluti þessara starfsmanna eru lögreglumenn, heilbrigðisstarfsmenn eða sjálfboðaliðar og hafa þeir verið meðal annars verið sakaðir um barsmíðar og dýraníð. Mörg myndbönd hafa sýnt þessa starfsmenn annaðhvort brjóta niður hurðir til að neyða fólk í einangrunarbúðir eða beita unga sem aldna ofbeldi úti á götum landsins.

Kínversk stjórnvöld gáfu þessum starfsmönnum nafnið „da bai“ eða „Stóri hvíti“ en það mun vera kínverska nafnið á teiknimyndapersónunni Baymax úr kvikmyndinni Big Hero 6. Almenningur í Kína er hins vegar byrjaður að kalla þá „hvítu varðliðana“ og er það tilvísun í rauðu varðliðana sem beittu almenning miklu harðræði á tímum menningarbyltingarinnar.

Myndbandið sem hefur verið í dreifingu má sjá hér að neðan. Eindregið er varað við efni þess: