Ríkið braut ekki gegn rétti ís­lenskrar fjöl­skyldu til að fá sam­band sitt viður­kennt, að mati Mannréttindadómstóls Evróupu sem í dag kvað í fyrsta skipti upp dóm í íslensku máli um staðgöngumæðrun.

Málið varðar dreng sem getinn er með stað­göngu­mæðrun og frá­skilin hjón sem barist hafa fyrir viður­kenningu á því að þau séu for­eldrar hans.

Hjónin, sem eru ís­lenskar, sam­kyn­hneigðar konur, fengu banda­ríska stað­göngu­móður til að ganga með drenginn fyrir sig. Hann fæddist í Kali­forníu í Banda­ríkjunum 14. febrúar 2013.

Notað var bæði gjafa­egg og gjafa­sæði við getnað barnsins og skömmu eftir fæðingu þess viður­kenndi banda­rískur dóm­stóll að ís­lensku konurnar væru mæður drengsins að lögum. Hvorki stað­göngu­móðirin né egg- eða sæðis­gjafinn ættu rétt til barnsins sem for­eldrar.

Ís­lensk lög heimila ekki stað­göngu­mæðrun og þegar hjónin komu með son sinn til Ís­lands hafnaði Þjóð­skrá beiðni þeirra um að fá drenginn skráðan sem son sinn og um leið að drengurinn fengi ís­lenskan ríkis­borgara­rétt. Var niður­staða þjóð­skrár stað­fest bæði í héraðs­dómi og í Hæsta­rétti.

Drengurinn var tekinn form­lega í um­sjá hins opin­bera eftir að viður­kenningu á tengslunum var hafnað en hjónunum síður fenginn drengurinn til fósturs. Drengurinn fékk íslenskan ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi árið 2015.

Töldu sér mismunað vegna samkynhneigðar

Fyrir Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu byggðu konurnar og drengurinn þeirra á 8. gr. Mann­réttinda­sátt­málans um rétt til frið­helgi einka­lífs og fjöl­skyldu og á 14. gr. um bann við mis­munun. Þau vísa bæði til þess að fólk í sömu fjöl­skyldu eigi rétt á því að fjöl­skyldu­tengsl þeirra séu opin­ber­lega viður­kennd.

Þá vísuðu þau einnig til þess að ís­lenskir dóm­stólar hafi viður­kennt for­eldra­tengsl í kjöl­far notkunar stað­göngu­móður þegar um for­eldra af sitt hvoru kyninu var að ræða og byggja á því að þeim hafi verið mis­munað vegna sam­kyn­hneigðar sinnar.

Í dómi MDE sem birtur var í morgun, er fallist á vissu­lega hafi fjöl­skyldu­tengsl myndast með konunum og drengnum og að synjun ríkisins á viður­kenningu tengslanna teldist inn­grip í rétt kær­endanna til fjöl­skyldu­lífs.

Bann við staðgöngumæðrun hafi lögmæt markmið

Þá lá fyrir MDE að leggja mat á hvort það inn­grip stæðist þau skil­yrði sátt­málans að vera bæði mál­efna­legt og rétt­lætan­legt.

Dómurinn féllst á þau rök Hæsta­réttar að hvorug konan gæti talist móðir drengsins í skilningi ís­lenskra laga. Fjallað er sér­stak­lega um bann við stað­göngu­mæðrun í ís­lenskum lögum. Bannið hafi þau mark­mið að vernda hags­muni og réttindi kvenna sem kunna að verða fyrir þrýstingi til að ganga með barn fyrir aðra og einnig að vernda rétt barna til að þekkja for­eldra sína. Þetta eru lög­mæt mark­mið að mati MDE.

Með vísan til þeirrar vel þekktu reglu að gefa aðildar­ríkjum svig­rúm til fram­fylgni sátt­málans á grund­velli eigin laga og laga­hefðar, vísar MDE til þess að ríkið hafi ekki í þessu til­viki gripið inn í eða brotið upp rót­gróið fjöl­skyldu­líf kær­endanna. Stjórn­völd hafi þvert á móti falið hjónunum að fóstra drenginn og haldið þannig opnunum mögu­leika þeirra á að ætt­leiða drenginn, en þess er getið að ætt­leiðingar­ferli hafi farið af stað eftir synjun Þjóð­skrár en ferlinu verið hætt þegar hjónin skyldu árið 2015.

Með þessum rökum féllst MDE á með ríkinu að því hafi verið rétt að synja hjónunum um form­lega viður­kenningu á að þær væru mæður drengsins, í því skyni meðal annars að við­halda lög­mætu banni við stað­göngu­mæðrun.