Drengur á öðru ári, sem lenti í um­ferðar­slysi á laugar­daginn í Skötu­firði í Ísa­fjarðar­djúpi, er látinn. Hann hét Mikola­j Majewski og lést á Land­spítalanum í dag. Móðir hans, Kamila Majewska, lést á laugar­dags­kvöld en hún var á þrí­tugs­aldri.

Frá þessu greinir sendi­ráð Pól­lands á Ís­landi á Face­book-síðu sinni.

Þrennt var í bílnum þegar slysið varð og er eigin­maðurinn nú á spítala í Reykja­vík en ekki er vitað um líðan hans að svo stöddu. Fjöl­skyldan var ný­lega komin til landsins og var á leið til Flat­eyri þar sem hún á heima er bíllinn hafnaði úti í sjó í Skötu­firði.

„Lög­reglan og aðrir við­bragðs­­aðilar votta fjöl­­skyldu og vinum Kamilu sína dýpstu sam­úð,“ sagði í til­­­kynningu lög­­reglu á sunnu­daginn. Stór hluti við­bragðs­­aðila fór í úr­­vinnslu­­sótt­kví vegna að­komu þeirra að lífs­bjargandi að­­gerðum. Á annan tug þeirra hafa dvalið, síðan í á laugar­dag, í sótt­varna­húsi sem opnað var í Önundar­­firði.

Söfnun hafin fyrir fjöl­skylduna


Hafin er söfnun fyrir fjöl­­skylduna. Söfnunin fer fram á pólsku söfnunar­­síðunni Pomagam og segir þar að vinir konunnar hafi hrundið henni af stað til að styðja við eigin­mann hennar og barn­ungan son, sem nú er látinn. Á síðunni kemur fram að söfnunin sé til að styðja við fjöl­­skyldu hans sem ætli að fljúga til Ís­lands til að að­­stoða hann og til að flytja lík Kamilu til Pól­lands þar sem stefnt er á að jarð­­setja hana. Búið er að safna rúm­lega 100 þúsund pólskum zloty eða um þremur og hálfri milljón ís­lenskra króna.