Móðir drengs sem fékk klaka í augað í frímínútum vill að for­eldrar brýni fyrir börnum sínum að hættu­legt sé að kasta klökum í fólk. „Það er náttúru­lega í höndum okkar for­eldranna,“ segir Bryn­dís Ás­munds­dóttir, móðir drengsins, í sam­talið við Frétta­blaðið. Betur fór en á horfðist, en drengurinn fékk sár á augað auk þess sem það blæddi inn á það, og segir Bryn­dís að augað grói vel. „Það lítur allt vel út núna.“

Augað grær vel

Bryn­dís segir að sonur hennar hafi ein­fald­lega verið ó­heppinn. „Hann var bara á röngum stað í frí­mínútum,“ segir hún. Þarna hafi verið krakkar að kasta klökum og hann hafi fengið einn klakann í augað.

Drengurinn fékk sár á augað auk þess sem blæddi inn á augað. Hann fór strax á bráða­mót­töku þar sem augn­sér­fræðingar Lands­spítalans skoðuðu hann, en Bryn­dís segir að augað grói vel og að í lagi sé með sjónina. Hann verði þó í hvíld næstu daga og erfitt sé að segja hversu langan tíma taki sárið að gróa „en þetta lítur ó­trú­lega vel út, sem betur fer. Þetta hefði geta farið miklu verr.“

Skólinn brást rétt við

Hún segir skólann hafa brugðist mjög vel við þegar slysið varð. „Það var sendur tölvu­póstur á alla for­eldra og imprað á því að þetta væri bannað.“ Hún vill að at­vikið verði notað í for­varnar­skyni. „Mér finnst skipta mestu máli að for­eldrar fræði börnin sín um hættuna sem fylgir því að vera að kasta klökum eins og þeir væru snjó­boltar.“