Skelfingu lostin ungmenni urðu vitni að því þegar bekkjarfélagi þeirra lagðist á lestarteina og lést á lestarstöð í Chersey í Bretlandi í gær. Heimildir herma að drengurinn, Sam Connor, hafi gripið til þessa örþrifaráða vegna einelti sem hann varð fyrir í skólanum.

Rétti félaga sínum töskuna

Vitni að atburðinum herma að drengurinn hafi rétt félaga sínum töskuna sína áður en hann stökk niður á brautarteinana og lagðist niður fyrir lest sem kom á fleygiferð. Lögreglumenn og sjúkraliðar komu fljótt á vettvang en drengurinn hafði látist samstundis við áreksturinn.

Lenti í einelti í skólanum

Fram kemur í frétt Daily Mail um málið að bekkjarfélagar Sam hafi sagt foreldrum sínum að Sam hafi verið lagður í einelti í skólanum. Aðeins fjórir dagar voru þar til skipulagt skólastarf átti að hefjast eftir sumarfrí.

James Kibble, félagsráðgjafi skólans, sagði stöðuna vera erfiða en að hann trúði að nemendur og kennarar gætu stutt hvort annað í gegnum þennan tíma. Hann bætti við að sálfræðingur myndi verða til staðar fyrir þau sem þyrftu. Annar fulltrúi skólans sagði skólann ekki hafa fengið neina tilkynningu um að drengurinn hefði verið lagður í einelti og vildi engu bæta við þau ummæli.

Nemendur, foreldrar og íbúar í hverfinu lögðu blóm að girðingu lestarstöðvarinnar í dag til að minnast harmleiksins.
Mynd/BPM