Fálkinn gaf drekanum byr undir báða vængi í kvöld og lenti svo aftur á skotpallinum elskulega. Fyrsta mannaða geimskot Bandaríkjamanna í tæpan áratug heppnaðist vel í kvöld.

Crew dragon geimfarið flytur nú geimfarana Robert Behnken og Douglas Hurley til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar eftir vel heppnað geimskot frá Canaveral-höfða í Flórída.

Þetta markaði tímamót í sögu SpaceX, einkafyrirtækisins í eigu Elon Musk, þar sem þetta er fyrsta mannaða geimskot fyrirækisins.

Falcon 9 eldflaugin fræga skaut Crew dragon geimfarinu á loft og lenti svo á skotpalli úti á hafi sem ber nafnið Of course I still love you.

Behnken og Hurley sáust fagna því þegar eldflaugin lenti á skotpallinum og gáfu þeir hvor öðrum hnefaklessu.

Tilefni til að „kless'ann“.
Skjáskot frá NASA og SpaceX

Samstarfsverkefni SpaceX og NASA markar lokaáfangann áður en hafist er handa við Mars-verkefnið en á næstu árum stefna Bandaríkjamenn á að byggja nýlendu á Mars.

Geimskotið átti upphaflega að fara fram fyrir tveimur dögum en fresta þurfti ferðinni vegna veðurs.