„Yngsti sonur minn, Matthías Björn, hefur alltaf haft gaman af því að lesa sjálfur og láta lesa fyrir sig. Drengirnir í árganginum hans stofnuðu stórskemmtilegan syrpuklúbb sem þróaðist yfir í bókaklúbb og hittast þeir mánaðarlega, lesa saman, skiptast á bókum og njóta veitinga,“ segir Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir.

Gunnhildur, ásamt foreldrum barna í fimmta bekk í Fossvogsskóla, gefur út heftið 5. bekkur mælir með og dreifir því í hús barnanna í fimmta bekk. „Í framhaldi af bókaklúbbnum vaknaði hugmynd hjá mér í septemberbyrjun um að safna saman bókaumsögnum fyrir allan árganginn, líka stelpurnar. Þau sjálf myndu gefa bókunum sem þau eru að lesa, í skólanum og heima, umsögn, til dæmis hvernig þau myndu lýsa bókinni í þremur orðum, fyrir hvern bókin er og hversu margar stjörnur bókin fær,“ útskýrir Gunnhildur.

Foreldrar barnanna setja myndir af þeim ásamt umsögnum um bækurnar og stjörnugjöfina á Facebook síðu árgangsins. Þaðan safnar Gunnhildur þeim saman og útbýr heftið.

„Með þessu samvinnuverkefni erum við komin með aðgengilegan hugmyndabanka að áhugaverðu, skemmtilegu og fjölbreyttu lestrarefni fyrir krakkana okkar ásamt því að þau eru að styrkja hvert annað í lestri,“ segir hún.

Gunnhildur segir að bæði foreldrarnir og börnin hafi tekið einstaklega vel í verkefnið og allir vilji leggja hönd á plóg. „Heftið var prentað út í 60 eintökum, það brotið saman, heftað og merkt hverju barni með nafni og heimilisfangi. Síðan gengum við mæðginin í hús og bárum heftið út. Það tók mun lengri tíma heldur en við bjuggumst við að ganga í tæplega 60 hús en móttökurnar voru frábærar og vel þess virði.“

Í kjölfar fyrsta heftisins fóru krakkarnir að tala meira um lestur og bækur ásamt því að skiptast á bókum. „Svo höfðu foreldrar samband við okkur Matthías og buðust til að hjálpa til við dreifinguna,“ segir Gunnhildur.

Í október hafði Gunnhildur samband við kunningja sinn hjá Prentmeti Odda og sagði honum frá verkefninu. „Hann bauðst til að styrkja verkefnið okkar með því að prenta næstu útgáfu á gæðapappír og brjóta saman októberheftið,“ segir Gunnhildur.

„Núna um helgina vorum við að leggja lokahönd á nóvemberheftið og sjáum við glögglega að krakkarnir okkar eru að lesa mun fleiri bækur í nóvember heldur en í október. Prentmet Oddi heldur áfram að styrkja verkefnið okkar og foreldrar eru strax búnir að bjóða fram aðstoð sína við dreifinguna. Þetta er dásamlegt samvinnuverkefni í alla staði því án allra aðila væri þetta ekki mögulegt,“ segir Gunnhildur.