Fagnaðar­læti brutust út meðal starfs­fólks í verk­smiðju lyfja­fram­leiðandans Pfizer í Michigan í Banda­ríkjunum í morgun þegar fyrsti vöru­flutninga­bíllinn ók úr hlaði fermdur bólu­efnis­skömmtum við kórónu­veirunni. Dreifing efnisins til heil­brigðis­stofnana í Banda­ríkjunum er nú form­lega hafin.

Vinna við að pakka tæp­lega þremur milljónum skammta bólu­efnisins hófst í verk­smiðju Pfizer í morgun. Efnið geymist að­eins í miklum kulda og er því flutt í sér­stökum kistum sem eru kældar með þurrís.

Bóluefnið sjálft. Það geymist aðeins við 94 gráðu frost.
Fréttablaðið/AFP

Bílarnir flytja bóluefnið til hundraða dreifingaraðila í öllum ríkjum Bandaríkjanna á næstu dögum og er búist við því að fyrstu skammtarnir sem voru sendir út í dag verði komnir á leiðarenda strax í fyrramálið. Þeim verður síðan úthlutað þaðan til heilbrigðisstofnana en heilbrigðisstarfsfólk og íbúar hjúkrunarheimila verða fyrstir til að fá bólusetningar í flestum ríkjum, samkvæmt frétt The New York Times. Bólusetningar eiga svo að hefjast á morgun.

Pfizer fékk neyðar­leyfi fyrir bólu­efninu frá Lyfja- og mat­væla­eftir­liti Banda­ríkjanna síðasta föstu­dag. Við prófanir kom í ljós að efnið veiti allt að 95 prósent vörn gegn veirunni. Fyrir­tækið er til­búið með 2,9 milljónir skammta af efninu sem verður dreift um Banda­ríkin með vöru­flutninga­bílum og flug­vélum á næstu dögum en vinna við að pakka því inn og fyrstu vöru­flutningar hófust í dag.

Her­foringinn Gusta­ve F. Perna, sem fer fyrir sam­starfs­verk­efni banda­rískra stjórn­valda og einka­lyfja­fyrir­tækja um þróun á bólu­efni og dreifingu þess, segir að dagurinn í dag sé upp­hafið að endinum í bar­áttunni við Co­vid-19. Hann líkti bar­áttunni við Seinni heims­styrj­öldina: „D-dagur var upp­hafið að endinum og við erum á sama stað í dag,“ sagði hann og í­trekaði þannig að það myndi þó taka ein­hverja mánuði að vinna endan­legan sigur á veirunni.