Söfnunar­á­tak UNICEF fyrir dreifingu á bólu­efni meðal efna­minni ríkja heims hefur nú staðið yfir í tæpar tvær vikur. Tekist hefur að safna fyrir dreifingu fyrir vel yfir tíu þúsund manns, sam­kvæmt Birnu Þórarins­dóttur fram­kvæmdar­stjóra UNICEF.

„Þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Birna. „Við erum með mjög öflug sam­starfs­fyrir­tæki eins og Krónuna, Te og kaffi, Lindex og BM Vall­á sem eru öll í fjár­öflun með sínum við­skipta­vinum og gengur mjög vel.“

Birna segir það á­nægju­legt að sjá þann með­byr sem á­takið hefur fengið en al­gengt er að fólk sýni því stuðning eftir að hafa sjálft fengið bólu­setningar.

„Við upp­lifum rosa­lega mikið þakk­læti og það er mjög gaman að geta verið við­takandi þess þakk­lætis sem fólk finnur þegar það fær bólu­setningu. Það er mörgum sem finnst gott að geta sett það þakk­læti í þann far­veg að gefa á­fram,“ segir Birna.

„En betur má ef duga skal og við ætlum að halda þessu á­taki,“ segir Birna og bendir á að hægt sé að leggja fjár­öfluninni lið með því að senda SMS-ið CO­VID í síma­númerið 1900.

„Við njótum gríðar­legra for­réttinda fyrir það að búa hérna og for­réttindi eru vand­með­farin. Þau eru best nýtt til að hjálpa þeim sem eru ekki jafn lán­samir og við,“ segir Birna.

UNICEF leiðir dreifingu bólu­efna fyrir hönd CO­VAX-sam­starfsins, verk­efni Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO) sem snýst um fjár­mögnun og dreifingu bólu­efna til fá­tækari ríkja heims.