Naloxone nefúði varð nýlega aðgengilegur fyrir vímuefnanotendur þeim að kostnaðarlausu. Kristín Davíðsdóttir, teymisstjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum, segir mikilvægt að fólk hafi frítt aðgengi að lyfinu.

Naloxone er notað til þess að draga úr áhrifum ofskömmtunar af ópíóíðum. Lyfið er í úðaformi og er sprautað í nef notanda sem hefur tekið of stóran skammt og er í andnauð.

„Við byrjuðum að dreifa Naloxone fljótlega eftir áramót, svo fengum við sérútbúnar töskur til þess að einfalda einstaklingum að hafa lyfið á sér. Þetta er orðið aðgengilegra og fljótlegra fyrir þá sem þurfa,“ segir Kristín, en að hennar sögn hefur dreifingin gengið vel til þessa.

„Það hefur gengið mjög vel. Eftirspurnin er mikil og við vissum fyrir að það hefur verið ákall eftir þessu innan ákveðins hóps. Fólk hefur verið í sambandi við okkur, bæði í gegnum bílinn á kvöldin og eins einstaklingar sem við erum að þjónusta á daginn. Við höfum farið til þeirra og hitt þau í þeirra umhverfi og látið þau hafa lyfið,“ segir Kristín og segir að það séu nokkrir einstaklingar sem eru nú þegar búnir að nota Naloxone og hafa komið til þess að fá nýjan skammt.

„Þetta er að hafa áhrif,“ segir hún.

Kristín segir að það sé mikilvægt að fólk hafi frítt aðgengi að Naloxone og að nú sé kjörið tækifæri fyrir ríkið til að niðurgreiða lyfið.

„Við fengum styrk til eins árs frá einkaaðilum og svo sjáum við hvernig staðan verður eftir þetta ár, hvað við erum búin að dreifa þessu víða og hvert framhaldið verður. Þetta er kjörið tækifæri fyrir ríkið til þess að grípa boltann og niðurgreiða lyfið, sérstaklega fyrir þann hóp sem þarf mest á þessu að halda,“ segir Kristín.

Þetta er í fyrsta skipti sem Naloxone fer í slíka dreifingu, en Kristín segir skondið að hún fari fram í gegnum frjáls félagasamtök og einkaaðila. „Þetta er á pari við adrena­lín-penna fyrir fólk sem er með bráðaofnæmi,“ segir hún og biður stjórnvöld um aðstoð við að koma lyfinu til þeirra sem þurfa.

„Það er einfalt dæmi að þetta sé mjög kostnaðarlega hagkvæmt að fólk hafi aðgang að Naloxone,“ segir Kristín.