Nokkur mismunur getur orðið á dreifikostnaði rafmagns eftir landsvæðum. Fyrirtæki sem staðsett er á svæði með innan við 200 íbúa getur þurft að greiða hærri dreifikostnað en fyrirtæki á þéttbýlla svæði. Verðmunurinn getur orðið fyrirstaða gegn framleiðslu grænmetis og þar með útflutningstækifærum, að sögn Gunnlaugs Karlssonar, framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna.

Fréttablaðið hefur fjallað um opnun markaða í Evrópu fyrir útflutning á íslensku grænmeti, ekki síst gúrkum. Talsvert magn hefur farið á þessu ári til Grænlands, Færeyja og Danmerkur. Mikil eftirspurn er eftir vörunni í vetur, enda hefur dönskum grænmetisbændum í vetrarræktun fækkað umtalsvert.

Gunnlaugur segir að ógn í þessu sambandi sé að gjaldskrá RARIK yfir flutningskostnað á rafmagni geri það erfitt fyrir stærri notendur að byggja upp raforkufrek gróðurhús, þótt um sé að ræða græna orku. Gjaldskrá RARIK miðist við fjölda íbúa á svæðum þar sem fámenn landsvæði sitji ekki við sama borð og þéttbýl.

„Þessi vitleysa þýðir að megnið af Íslandi er ekki með í leiknum ef kemur að því að byggja á rafmagni. Það þarf að búa til sérstaka gjaldskrá fyrir græna starfsemi og koma á fleiri verkefnum,“ segir Gunnlaugur.

Útflutningstækifæri í þessum efnum séu því aðeins á völdum svæðum, en þá sé ekki endilega samasemmerki milli staðhátta, innviða og kunnáttu. Ótækt sé að setja sérstakt álag fyrir það eitt að notandi búi á fámennu svæði. Misréttið einskorðist ekki við matvælaframleiðslu.

Framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna telur dreifikostnað á raforku koma í veg fyrir að gróðurhúsarækt þrífist sem skyldi á sumum landsvæðum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Gunnlaugur nefnir sem dæmi að bændur á Reykholtssvæðinu gætu þurft að greiða um 50 milljónir króna á ári ef þeir hygðust næla sér í tvö megavött af raforku. Ef annar framleiðandi á Reykjanesi ætlaði sér að kaupa sama magn af raforku af HS Orku þyrfti sá aðeins að greiða 12,5 milljónir króna.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir misskilning einkenna gagnrýni Sölufélags garðyrkjumanna. Fráleitt sé að dæmi Gunnlaugs eigi við rök að styðjast. Tryggvi telur hugsanlegt að Gunnlaugur gleymi flutningskostnaðinum frá Landsneti sem sé innifalinn í taxta RARIK en ekki hjá HS-Veitum.

Hitt sé rétt að dreifikostnaður raforku í dreifbýli sé enn þá hærri en í þéttbýli, en einkum til smærri notenda. Það gildi bæði hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða. Um lítinn mun sé að ræða sem fari minnkandi. Stjórnvöld hafi verið að jafna bilið, stefna stjórnvalda sé að reyna að jafna muninn alveg út svo allir sitji við sama borð.

Tryggvi Þór bendir á að hluti jöfnunar til garðyrkjubænda eigi sér stað í gegnum búvörusamning. Það sé ekki hlutverk RARIK heldur stjórnvalda að taka ákvörðun um hvort umbuna skuli fyrir græna orku eða ekki.