Meðlimir í nýnasistahópnum Norðurvígi hafa dreift bæklingum með nasistaáróðri í póstkassa háskólanema við Sæmundargötu. Einnig hafa sést límmiðar með tákni Norðuvígis á staurum og rafmagnskössum um lóð Háskóla Íslands. Þónokkrir nemendur hafa verið duglegir að ganga um lóðina að fjarlægja límmiðana.

Brian Barr, bandarískur nemandi við Háskóla Íslands vakti athygli á málinu á Facebook.

„Mér er sérstaklega umhugað um þetta mál því ég hef séð nýnasista sækja í sig veðrið í Bandaríkjunum og ég reyni því að gera allt í minni stöðu til að berjast gegn þessu,“ segir Brian í samtali við Fréttablaðið. Hann segir það áhyggjuefni að Háskóli Íslands hafi ekki enn sent frá sér yfirlýsingu varðandi verknaðinn þrátt fyrir að fjöldi nemenda hafi sent ábendingar til háskólans.

„Þessi límmiðar og bæklingar dúkka upp um alla háskólalóðina og stjórnendur háskólans hafa ekki gert neitt til að fjarlægja þá. Nemendurnir eru að sjá um að fjarlægja límmiðana. Skólinn hefur alltaf lagt áherslu á fjölbreytni og virðingu en þetta afstöðuleysi er óskiljanlegt. Nasismi á ekki heima neins staðar, sérstaklega ekki í alþjóðlegum háskóla, og er því nauðsynlegt að fordæma þetta sem fyrst. Stjórnendur háskólans hafa ekkert látið í sér heyra varðandi þennan áróður og ættu því að skammast sín,“ segir Brian.

Nýnasistarnir í Nor­rænu mót­stöðu­hreyfingunni festu límmiða utan á barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði síðastliðinn september. Skólastjórinn fjarlægði miðana með stálull.

Hópurinn, sem samanstendur að fimm mönnum og einni konu, voru að ferðast um landið í lok sumars að dreifa nasistaáróðri. Einnig komu þeir sér fyrir á Lækjartorgi til að reyna að safna nýliðum.

„Við erum hér til þess að safna ný­liðum og vekja Ís­lendinga til um­hugsunar“ sagði Simon Lind­berg, leið­­togi Nor­dic Resistance Movement, í sam­tali við blaða­mann Frétta­blaðsins í september.

Í kjölfarið boðuðu ellefu félagasamtök til samstöðufundar gegn nasisma til þess að „endurheimta torgið frá þeim sem vilja reyna að halda uppi gildum rasisma, hinseginfóbíu, útlendingahaturs og annarra svipaðra og úreltra fordóma gegn jaðarsettum hópum.“